Fréttir

Enn ferskari fiskur!

Endurbættar varmaeinangrandi pakkningar fyrir ferskar fiskafurðir. Reynslan hefur kennt útflytjendum ferskra fiskafurða að full ástæða er til að leita allra leiða til að verja vöruna fyrir því hitaálagi, sem hún verður fyrir í flugflutningi á leið til markaðar. 

Rannsóknir hafa sýnt að góð forkæling fyrir pökkun og vel einangraðar pakkningar geta skipt sköpum fyrir hitastýringu og þar með hámörkun afurðagæða. Matís, Háskóli Íslands og Promens Tempra, hafa tekið höndum saman um rannsóknir á þessu sviði innan verkefnanna Chill on og Hermun kæliferla, sem styrkt er af AVS rannsóknasjóði, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. 

Óumflýjanlegt er að varan verði fyrir einhverju hitaálagi í flugflutningi. Til að meta hækkun vöruhita hefur verið stuðst við tilraunir og tölvuvædd varmaflutningslíkön (CFD líkön).  Mynd 1 sýnir hversu mikillar vöruhitahækkunar er að vænta í stökum 5 kg frauðplastkassa (án ísmottu), sem verður fyrir 5 – 20 °C hitaálagi. Af myndinni má t.d. sjá að standi kassinn í 10 klst. í 15 °C hita hækkar vöruhitinn úr 1 °C í 6.6 °C. Mikilvægi forkælingar fyrir pökkun sést vel á því að hafi þessi sömu 5 kg verið forkæld niður í -1 °C fyrir pökkun í þennan sama frauðplastkassa má áætla að það taki hita flakanna einmitt u.þ.b. 10 klst. að hækka í 0 °C.

Hermun_kaeliferla-1
Mynd 1.  Meðalhiti 5 kg hvítfiskflaka í 5 kg hefðbundnum frauðplastkassa,
sem látinn er standa stakur í 5 – 20 °C hita.  Upphafsvöruhitinn er 1 °C og
gert er ráð fyrir varmaburðarstuðlinum 5 W/m2/K fyrir utan kassann, þ.e.
að ekki leiki vindur um kassann. 

Þá hafa bæði tilraunir og varmaflutningslíkön staðfest að hitadreifingin í slíkum kössum getur verið mjög misleit eins og sést á mynd 2.  Einsleitari hitadreifing er ákjósanleg því þannig getur kaupandinn verið enn öruggari um jafnari gæði vörunnar. Unnið er að endurbótum á frauðplastkössum Promens Tempra þar sem stuðst er við niðurstöður úr rannsóknarverkefninu.

Hermun_kaeliferla-2
Mynd 2.  Hitadreifing (°C) í lóðréttu langskurðarsniði frauðplastkassa,
sem hefur staðið stakur í 19.4 °C hita í 1 klst. með upphafsvöruhita 1 °C. 

Nánari upplýsingar veitir Björn Margeirsson, bjorn.margeirsson@matis.is.

IS