Árangur Íslendinga í aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi er sérstaklega mikill í tilviki okkar verðmætustu tegundar, þorsksins. Árið 2016 var útflutningsverðmæti landaðs þorskafla Íslendinga 3,15 dollarar á kg 4,6 sinnum meira en árið 1981. Þorskaflinn 2016 skilaði 2,6 sinnum meiri verðmætum en 1981, þó aflinn 2016 hafi einungis verið 57% af afla ársins 1981.
Árið 2016 öfluðu Íslendingar 1 milljón 67 þúsund tonna, útfluttar sjávarafurðir námu 579 þúsund tonnum. Fyrir hvert útflutt kg af sjávarafurðum fengum við 2,5 sinnum meira árið 2016 en árið 2003, en það ár var tekin stefnumótandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs með rannsóknum og þróun. Þá var ákveðið að huga fremur að verðmætum afurða en magni hráefna.
Árangurinn er enn meiri sé litið sérstaklega á okkar verðmætustu tegund, þorskinn. Árið 2016 var útflutningsverðmæti landaðs þorskafla Íslendinga 3,15 dollarar á kg 4,6 sinnum meira en árið 1981. Þorskaflinn 2016 skilaði 2,6 sinnum meiri verðmætum en 1981, þó þorskaflinn 2016 hafi einungis verið 57% af þorskafla ársins 1981.
Framangreindar tölur komu fram í máli Önnu Kristínar Daníelsdóttur sviðsstjóra rannsókna og nýsköpunar hjá Matís er hún leitaðist við að svara því: Hvers krefst sterkt lífhagkerfi, í erindi sem hún hélt nýverið á ráðherrafundi sem fjallaði um bestu nýtingu haftengdra tækifæra sem efnt var til í tengslum heimsþing um málefni sjávarfangs WSC2017. Um árabil hefur verið fjallað um lífhagkerfi sem hagkerfi byggt á nýtingu lífauðlinda, lífhagkerfi á grundvelli þekkingar var fyrirferðamikið í rannsókna og þróunarstarfi 2007-2013 (e. Knowledge Based Bioeconomy). Þar er lykilatriði að ganga ekki nærri auðlindunum, taka ekki meira en svo að vöxtur og viðgangur auðlindanna sé tryggður. Hagkerfi byggir ekki einvörðungu á því að veiða eða slátra fiski í hóflegu magni, sjálfbærni er vissulega grunnurinn, en verðmætasköpunin ræðst af meðferð, vinnslutækni og ráðstöfun.
Víðtækt samstarf
Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri innleiðingar og áhrifa hjá Matís segir um áherslu á hagnýtingu rannsókna og þróun til verðmætasköpunar: „Með skýrri stefnu hafa ólíkir aðilar komið saman í fjölmörgum verkefnum beitt sköpunarkrafti, haft frumkvæði að metnaðarfullri þróun. Eftir þeirri stefnu höfum við siglt og við höfum komist þangað sem við ætluðum, við gerum meira úr því sem við veiðum og er sérhvert kíló verðmætara.
Heilnæmt öruggt sjávarfang stuðlar að lýðheilsu. Sameiginlegir innviðir og þekking til þróunar atvinnugreina hafa verið byggð upp og nýtt í samstarfi með framangreindum árangri. Skilningur á markaðslögmálum hjálpar til – í stað þess að reyna að selja það sem er framleitt, er unnið að því að framleiða það sem selst. Þekking hefur skapast með samstarfi háskóla, fjölbreyttra fyrirtækja og Matís. Matís kemur að kennslu framhaldsnáms í matvælafræðum í Háskóla Íslands, sem og vinnslutækni í Háskólanum á Akureyri. Rannsóknainnviðir hafa verið notaðir til að þróa aðferðir til að vinna afla í sem verðmætastar vörur. Nýjar vörur hafa litið dagsins ljós. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa nýtt mæliþjónustu, rétt eins og fyrirtæki í matvælaiðnaði almennt, til að uppfylla skilyrði. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa nýtt samstarfið við Matís til að skapa ný og meiri verðmæti, sömu sögu er hægt að segja um iðnfyrirtæki sem þjónusta matvælaiðnaðinn hér á landi. Slíkt samstarf hefur stuðlað að framangreindum árangri.“
Margvísleg þekking og færni starfsmanna Matís hefur m.a. átt þátt í þeirri þróun sem íslenskur sjávarútvegur hefur farið í gegnum, innleiðing þekkingar hefur eflt íslenskan sjávarútveg, rétt eins og íslenskan matvælaiðnað, m.a. með hagnýtingu líftækni.
„Ábyrgar fiskveiðar, á vísindalegum grunni, og áhersla á gæði, tryggja rekstrarskilyrði í frumframleiðslu og opna ný tækifæri í tengdum greinum. Með bættri aflameðhöndlun, eru gæðin betur varðveitt sem gerir fjölbreytta nýtingu mögulega. Öguð vinnubrögð á einum stað leysa vandamál á öðrum, opna leiðir inn á nýja markaði með nýjar vörur. Bætt nýting hráefna minnkar hvata til ofveiði. Ábyrgð styður við sjálfbærni sem eykur hagkvæmni og skapar svigrúm fyrir rannsóknir og þróun. Ísland er meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims og eitt fárra ríkja hvar sjávarútvegur leggur fjármuni inn í sameiginlega sjóði landsmanna. Hér spretta nú upp nýjungar sem vekja athygli víða um heim sem aðrir reyna að líkja eftir.
Á hinni velheppnuðu ráðstefnu WSC2017 var augljóst að þeim fjölgar sem beina sjónum sínum að sjónum, því tækifæri felast í aukinni nýtingu lífauðlinda í hafi og vatni m.a. til matvælaframleiðslu. Athygli alheimsins dregst í auknum mæli að því að yfir 95% af matvælaframleiðslu heimsins er stunduð á landi, sem er innan við 1/3 af yfirborði jarðar, ræktað land er undir miklu álagi vegna notkunar og örum breytingum umhverfisþátta“ bætir Arnljótur Bjarki við.
Þá nefnir Arnljótur Bjarki, Heimsmarkmið 14, líf undir vatnsyfirborðinu “var eðlilega fyrirferðamikið á ráðstefnunni og Utanríkisráðuneytið var með sérstaka málstofu um viðfangsefnið. Þátttakendum WSC2017 þótti vel til fundið að koma til Íslands til að ræða málefni sjávarfangs enda hefur Ísland, eftir útfærslu efnahagslögsögunnar brotist úr viðjum vítahrings óvarlegrar umgengni um auðlindir sjávar, sóunar, þegar áhersla var lögð á magn umfram gæði, með ótryggum rekstrarskilyrðum fyrirtækja í frumframleiðslu og tengdum greinum”.
Þróun í takt við þarfir
Mikill samhljómur var á ráðstefnunni WSC2017. Í máli Sigurðar Ólasonar framkvæmdastjóra fiskiðnaðarseturs Marel kom mikilvægi þess að leggja áherslu á að þróa vinnslu og dreifingu sjávarfangs skýrt í ljós, vel stýrðar fiskveiðar eru sannarlega arðbærar en mikil tækifæri liggi í vinnslu og dreifingu sjávarfangs, þar er þörf á þróun. „Eftir miklu er að slægjast með þróun vinnslu og dreifingar sjávarfangs, sem á nokkuð í land til að teljast sambærileg við arðbærni kjötvinnslu, að maður tali ekki um stóru vörumerkin á matvælamarkaði,“ segir Arnljótur Bjarki og bætir við að lokum: „Við Íslendingar höfum gert vel, en við getum gert betur.“