Fréttir

Erlendir sjávarútvegsráðherrar heimsækja Matís

Íslendingar hafa markað sér gott orðspor þegar kemur að nýtingu sjávarfangs og nýsköpunar í sjávarútvegi. Matís ásamt samstarfsaðilum sínum hefur stutt vel við þessa þróun með rannsóknum og nýsköpun. 

Velgengni Ísland á þessu sviði hefur vakið verðskuldaða athygli og hafa erlendir aðilar áttað sig á að hér er að finna einstaka þekkingu og reynslu í sjávarútvegi. Sjávarútvegsráðherra Noregs Elisabeth Aspaker heimsótti Matís í dag til þess að fræðast um starfsemi fyrirtækisins og fá svör við spurningunni „Af hverju Íslendingar eru svona duglegir að framleiða og selja hágæðavörur unnar úr hvít- og uppsjávarfisk?“
Spurningin á fullan rétt á sér því munurinn á aflanýtingu Íslendinga og Norðmanna er umtalsverður. Á Íslandi fást t.d. 570 kg af afurðum úr 1 tonni af þorsk en sama magn skilar Norðmönnum aðeins 410 kg af afurðum. Munurinn nemur 16% eða 160 kg á hvert tonn sem  þýðir að virðisaukning Norðmanna út frá heildarafla þeirra í Barentshafi árið 2013 gæti numið rúmlega 1 milljarði NOK eða 21 milljarði ISK ef þeir tileinkuðu sér aðferðir Íslendinga.1 
Raunar er það svo að sjávarútvegsráðherrar beggja vegna Atlantshafsins hafa lagt leið sína til Matís á undanförnum dögum því fyrir viku síðan heimsótti Keith Hutchings sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands einnig Matís. Auknar þorsveiðar úti fyrir Nýfundnalandi skapa ný tækifæri fyrir sjávarútveginn. Auk þess sýndi hann hlutverki Matís sem brú milli háskóla og atvinnulífs mikinn áhuga og taldi það samstarf efla iðnaðinn.

IS