Fréttir

Ferðasnakk úr svínakjöti

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Petrína Þórunn Jónsdóttir, sem býr í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er að vinna að forvitnilegum verkefnum í aðstöðu matarsmiðju Matís á Flúðum þar sem hún vinnur afurðir í tengslum við svínabúskapinn í Laxárdal.

„Ég er að prófa að þurrka svínakjöt, beikon úr hryggvöðva, lifrarkæfu og buffkökur. Þurrkað svínakjöt er unnið úr besta vöðvanum úr svíninu. Öll sýnileg fita er skorin í burtu, svo er kjötið hakkað, kryddað og þurrkað. Markmiðið er að búa til eins konar ferðasnakk, kjötið er ekki kælivara og á endingartíminn að vera nokkrir mánuðir. Lifrarkæfan er unnin á hefðbundinn hátt. Hryggjarbeikon er fituminna, einungis þunn fiturönd á kjötinu sem hægt er að taka í burtu og er það sneitt í mun þykkari sneiðar en fólk er vant hér. Grísabuffin eru tilbúin á grillið eða á pönnuna, í þau nota ég íslenskar kryddjurtir. Ástæðan fyrir því að þetta eru svona mismunandi tegundir sem ég er með er til að ég geti unnið vörur úr öllum grísnum,“ sagði Petrína. Hún segist vera hæstánægð með aðstöðuna á Flúðum en Vilberg Tryggvason stöðvarstjóri kynnti hana fyrir Óla Þór Hilmarssyni kjötiðnaðarmeistara og hefur hann leiðbeint henni með úrbeiningu og vinnsluaðferðir.

Nánari upplýsingar veitir Vilberg Tryggvason hjá Matís.

Ofangreind frétt birtist fyrst á DFS.is, Fréttablaði Suðurlands.

IS