Fréttir

Fjallað um omega-3 fitusýrur í The Economist

Hið virta vikurit The Economist birtir í nýjast tbl. sínu tvær greinar um omega-3 fitusýrur, þar sem í annarri er m.a. fjallað um rannsókn sem gerð var í Bretlandi á áhrifum neyslu omega-3 fitusýra barnshafandi kvenna á þroska barnanna. Í stuttu máli virðist rannsóknin sýna enn og aftur fram á að jákvæðu hliðar fiskneyslu séu margfalt fleiri en þeir neikvæðu.   

Rannsóknin sem The Economist gerir að umfjöllunarefni stóð yfir í 15 ár og náði til 14 þúsund kvenna og barna þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem kölluð er Avon-rannsóknin, voru kynntar á vísindaráðstefnu í London nýlega. Fjöldi rannsókna á áhrifum omega-3 fitusýra hafa verið gerðar á undanförnum áratugum og margar greinar hafa birst í virtum vísindaritum um gagnleg áhrif þeirra, m.a. fyrir hjarta og heila.   Búast má við að greinar um þetta efni í jafn víðlesnu tímariti og The Economist hafi víðtækari áhrif á skoðanir fólks en margar aðrar.

Að mati greinarhöfundar The Economist ættu niðurstöður Avon-rannsóknarinnar að vera sérstaklega athyglisverðar fyrir yfirvöld í Bandaríkjunum, en þar hafa menn goldið vara við fiskneyslu barnshafandi kvenna, m.a. vegna ótta við skaðsemi vissrar tegundar kvikasilfurs.  Dr. Joseph Hibbeln frá National Institutes of Health í BNA segir þó að rannsóknin sýni ótvírætt fram á að kostir fiskneyslu séu margfaldir á við þá hættu sem stafað geti frá kvikasilfri í fiski.

Greinarhöfundur The Economist bendir að vísu á að varast skuli að draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðum Avon-rannsóknarinnar að svo stöddu, en er þó greinilega sannærður um ágæti omega-3.

Þeim sem enn efast um heilnæmi fisksins, má benda á að rannsóknir sýna að magn óæskilegra efna sem finna má í fiski af Íslandsmiðum er langt undir viðmiðunarmörkum.

Grein The Economist

IS