Fréttir

Fjölgun starfa og hátt menntunarstig hjá Matís í Skagafirði

Matís er með starfsstöð í Skagafirði. Þar er svokölluð Líftæknismiðja staðsett og er lífvirkni hinna ýmsu efna úr íslenskum sjó rannsökuð þar.

Það sem er auk þess áhugavert við starfsstöðina er hversu hátt menntunarstig starfsmenn Matís hafa. Af þeim fimm starfsmönnum sem þar starfa eru þrír með meistaragráðu og tveir með doktorsgráðu. Með slíkri þekkingu er hægt að halda úti margþættri og áhugaverðri starfsemi sem skiptir máli fyrir nærumhverfið og ekki síður fyrir landið í heild.

Starfsemi Matís í Líftæknismiðjunni er margþætt. Í fyrsta lagi hefur Matís komið upp sérhæfðri rannsóknastofu á sviði líftækni og lífefna.  Í öðru lagi starfrækir Matís tilraunaverksmiðju í vinnslusal Líftæknismiðjunnar, þar sem fyrirtækið Iceprotein ehf. hefur byggt upp starfsemi sína. Að lokum vinnur starfsfólk Matís í Líftæknismiðjunni með fyrirtækjum í Skagafirði og NV-landi að ýmsum umbóta-og hagræðingarverkefnum.

Með Líftæknismiðjunni hefur skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækni geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Á rannsóknastofu Líftæknismiðjunnar er unnið að mælingu á lífvirkum eiginleikum lífefna úr íslenskri náttúru. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til framleiðslu afurða. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mikilvæg í styttingu ferlis frá hugmynd til markaðar. Með vali á staðsetningu Líftæknismiðjunnar er litið til nærumhverfisins sem matarkistan Skagafjörður er.

Markviss uppbygging á rannsóknaaðstöðu á sér stað í Líftæknismiðju Matís, sem nú þegar er þátttakandi í víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi. Líftæknismiðjunni er ætlað að leggja af mörkum sérhæfða rannsóknaraðstöðu, þróunaraðstöðu með vinnsluleyfi og sérfræðiþekkingu í samstarfsverkefnum framtíðarinnar. Í vinnslusal Líftæknismiðjunnar er m.a. aðstaða til að einangra prótein og þurrka. Líftæknismiðjunni er ætlað að vinna í nánu samstarfi við matvælafyrirtækjum á landinu.

Myndband um starfsstöðina má finna hér.

Stöðvarstjóri Matís á Sauðárkróki er Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisauka og eldi.


Matís á Sauðárkróki:

Háeyri 1, 550 Sauðárkrókur

Starfsmenn:

  • Arnljótur B. Bergsson, M.Sc., sviðsstjóri, sími 422 5013
  • Hólmfríður Sveinsdóttir, PhD, sérfræðingur, sími  422 5064
  • Patricia Y. Hamaguchi PhD, sérfræðingur, sími 422 5041
  • Hilma Eiðsdóttir Bakken, M.Sc., rannsóknarmaður, sími 422 5064
  • Annabelle Vrac, M.Sc., rannsóknarmaður, sími 422 5064
IS