Fréttir

Fræðaþing landbúnaðarins 2010 18.–19. febrúar – Matís með mörg erindi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fræðaþing landbúnaðarins verður haldið dagana 18.-19. febrúar 2010 í húsakynnum Hótel Sögu. Að venju býður Fræðaþingið upp á umfjöllun og miðlun á fjölbreyttu faglegu efni í mismunandi málstofum, en þessi vettvangur hefur í áranna rás þróast í að vera mikilvirkasta miðlunarleið fyrir niðurstöður fjölbreytts rannsókna- og þróunarstarfs í landbúnaði, auk þess sem á þinginu eru tekin til umfjöllunar ýmis málefni tengd atvinnugreininni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni.

Fræðaþingið hefst með athöfn í Súlnasal Hótel Sögu kl. 13:00 fimmtudaginn 18. feb. Þar mun Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setja þingið en í kjölfarið mun Þorsteinn Ingi Sigfússon hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands halda erindi um orkumál. Að því loknu mun Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, fjalla um fæðuöryggi og íslenskan landbúnað.

Eftir sameiginlega dagskrá í Súlnasal skiptist þingið upp í nokkrar málstofur þar sem fjölbreytt efni er á dagskrá. Þar má nefna sjálfbæra orkuvinnslu og nýsköpun í matvælavinnslu. Á föstudeginum heldur þingið áfram og hefst kl. 9:00 í fundarsölum Hótel Sögu. Þá verður m.a. þingað um erfðir, aðbúnað búfjár og vistfræði. Samhliða fyrirlestrum er veggspjaldasýning.

Fræðaþing landbúnaðarins er haldið árlega en að því standa Bændasamtök Íslands, Landgræðslan, Veiðimálastofnun, Skógrækt ríkisins, Matvælastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, Hagþjónusta landbúnaðarins og Matís.

Mikill meirihluti erinda, sem flutt verða á Fræðaþinginu, er gefinn út í sérstöku prentuðu hefti sem þátttakendur á þinginu geta fengið og er innifalið í þátttökugjaldinu. Ennfremur verða velflest erindanna aðgengileg í Greinasafni landbúnaðarins á landbunadur.is. Greinasafnið geymir stóran hluta landbúnaðarfagefnis sem gefið hefur verið út á liðnum árum.

Hægt er að nálgast umfjöllun og dagskrá Fræðaþings á vef Bændasamtakanna, www.bondi.is

.


Meðal athyglisverðra fyrirlestra má nefna:
–        Möguleikar og hindranir í nýtingu lífrænna orkuauðlinda
–        Ræktun orkujurta á bújörðum
–        Hlývatnseldi á Íslandi
–        Tækifæri í ylrækt í matvælaframleiðslu
–        Þurrkað lambakjöt
–        Íslenska kúakynið, viðhorf neytenda og varðveislukostnaður
–        Skyldleiki norrænna hestakynja
–        Vistkerfi heiðatjarna
–        Þróunarfræðilegar breytingar við Mývatn
–        o.m.fl.

Öllu áhugafólki um fagmál landbúnaðar og náttúruvísindi, þar með töldum bændum, býðst að sækja þingið meðan húsrúm leyfir. Hægt er að skrá þátttöku á Fræðaþingið á vefnum www.bondi.is. Ráðstefnugjald er kr. 10.000 (innifalið fundargögn og kaffi/te) en nemar fá ókeypis aðgang gegn framvísun nemendaskírteinis.

Nánari upplýsingar veita:
Gunnar Guðmundsson, Bændasamtökum Íslands, í síma 563-0333 og 896-1073 eða á netfangið gg@bondi.is.
Tjörvi Bjarnason, Bændasamtökum Íslands, í síma 563-0332 og 862-3412 eða á netfangið tjorvi@bondi.is

IS