Matís og Mótás undirrituðu leigusamning vegna framtíðarhúsnæðis Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík sl. föstudag, 26. júní.
Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákvað 24. apríl sl., eftir að hafa lagt málið fyrir ríkisstjórn Íslands, að Matís ohf. flytji starfsemi sína í nýtt húsnæði um næstu áramót.
Í samræmi við það markmið að fjölga störfum í byggingariðnaði var Framkvæmdasýslu ríkisins falið að auglýsa eftir leiguhúsnæði fyrir Matís ohf. sem nú starfar á þremur stöðum víðs vegar um borgina.
Ákveðið var síðan að velja byggingarfélagið Mótás sem boðið hafði fram leigu á 3.800 fermetra húsnæði að Vínlandsleið 12, Reykjavík. Húsnæðið sem nú er fokhelt er á þremur hæðum ásamt kjallara og mun leigusali innrétta húsnæðið og skila því fullfrágengnu að utan sem innan. Leigusali hefur áætlað að mannaflaþörf, þ.m.t. afleidd störf við að fullgera húsnæðið í samræmi við húslýsingu Matís, séu um 200 ársverk.
Með lögum nr. 68/2006 um stofnun Matvælarannsókna hf. heimilaði Alþingi að stofna hlutafélag um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, sbr. samstarfssamning milli Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Í athugasemdum við frumvarpið var lögð rík áhersla á að fyrirtækinu yrði gert kleift að sameina undir einu þaki starfsemi stofnananna sem verið var að sameina.
Félagið – Matís ohf. – tók til starfa 1. janúar 2007.
Meðfylgjandi eru myndir frá undirskriftinni og þar má sjá aðila úr stjórn Matís, forstjóra Matís og framkvæmdastjóra Mótás skrifa undir samninginn.