Fréttir

Framtíðarhúsnæði Matís í Vatnsmýrinni

Í gær, 3. júní, var samþykkt á stjórnarfundi Matís að ganga til samninga við Háskólann í Reykjavík (H.R.) um framtíðarhúsnæði fyrirtækisins. Lóðin, sem hið nýja húsnæði mun rísa á, stendur vestan við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við Hlíðarfót í jaðri Öskjuhlíðar. Einnig buðu Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf og S8 ehf húsnæði til leigu, en framangreind niðurstaða varð úr þar eð tilboð H.R. var hagstæðast þeirra tilboða er bárust.

Hið nýja rannsókna- og skrifstofuhúsnæði Matís mun hýsa þá starfsemi sem í dag fer fram á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu; við Borgartún 21, við Skúlagötu 4 og við Gylfaflöt 5.

Eftir sem áður mun Matís reka starfstöðvar sínar á landsbyggðinni með óbreyttu sniði, en þær er að finna á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Neskaupstað, Höfn og Vestmannaeyjum. Þegar liggja fyrir teikningar að húsinu, sem unnin er af arkitektastofunni ARKÍS, og er markmið þeirrar tillögu að hanna sértækt rannsóknahús sem passar öllum starfssviðum Matís. Byggingin er “sveigjanleg í hönnun, með opin og björt rými með góðum og stuttum tengingum milli rýma og starfsmanna er gefa starfsmönnum möguleika á opnu og gagnvirku vinnuumhverfi”, eins og segir í gögnum frá arkitektastofunni. Húsið er alfarið ætlað Matís og er sérhannað utanum starfsemi fyrirtækisins.

Það er Matís mikið ánægjuefni að niðurstaða skuli vera fengin í umleitanir fyrirtækisins undanfarna mánuði um framtíðarhúsnæði. Það á ekki síst við þar sem stjórnendur Matís telja það mikinn kost að tekist hafi finna hinu þekkingar- og þróunarmiðaða fyrirtæki framtíðarstæði í svo góðu nábýli við Háskólann í Reykjavík sem og Háskóla Íslands, en Matís hefur frá upphafi lagt áherslu á gott samstarf við háskóla hér á landi og hjá fyrirtækinu vinna hverju sinni margir háskólanemar að meistara- og doktorsverkefnum sínum. Það er því án nokkurs vafa að samlegðaráhrif verða þarna til í bráð og lengd.

Flutningur Matís í þetta framtíðarhúsnæði, sem er fyrirhugaður fyrir árslok 2010, er starfsmönnum öllum fagnaðar- og tilhlökkunarefni, og hin nýja staðsetning, í návist Háskólanna í Vatnsmýrinni, mun eflaust reynast fyrirtækinu hinn besti vettvangur til að starfa áfram í krafti gilda sinna, sem eru frumkvæði, heilindi, metnaður og sköpunarkraftur.

Skoða teikningar af framtíðarhúsnæðinu

IS