Fréttir

Fundið fé í bolfiskvinnslu

Mikill fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur felst í því að nýta fiskhold eða prótein sem tapast í bolfiskvinnslu. Verðmæti geta numið hundruð milljóna króna miðað við það 60 þúsund tonna ársframleiðslu af ferskum og frosnum bolfiskafurðum. Þá fer minna af lífrænum efnum út í umhverfið með því að nýta fiskhold eða prótein í vinnslunni, að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands), Brims og Toppfisks.

Í rannsókninni, sem nefnist “Vannýtt prótein í frárennslisvatni frá fiskvinnslum” er lýst úttekt á vatnsnotkun og próteintapi við flökun og roðflettingu í bolfiskvinnslu. Þar segir að ef gert er ráð fyrir að um 1% af hráefnisþyngd tapist við flökun og roðflettingu samsvarar það um 1.200 tonnum af flakaafurðum miðað við 60 þús. tonna ársframleiðslu af ferskum og frosnum bolfiskafurðum. Verðmæti geta því numið um 120-500 milljónum króna á ári, eftir því hvort fiskmassinn er verðlagður sem marningur eða verðmætari afurðir til manneldis. Rétt er að benda á að ýmsir þættir geta haft áhrif á tap fiskholds við vinnslu, s.s. ástand hráefnis og vinnslubúnaðar en ekki var lagt mat á breytileika m.t.t. þess.

Í rannsókninni kom í ljós að vatnsnotkun var um 0,5 l/kg afurðar við flökun og sambærileg vatnsnotkun við roðdrátt ef miðað var við vinnslu á 2 kg af fiski og 50% vinnslunýtingu. Vatnið var síað með nokkrum sigtum af mismunandi grófleika (0,25-1mm). Með grófri síun (1mm) mátti skilja mestan hluta blóðtægja og beina frá en eftir því sem að síun var fínni því hvítari og einsleitari varð fiskmassinn. Með því að einangra þurrefni úr frárennslisvatni er hægt að auka verðmæti og bæta nýtingu sjávarfangs en jafnframt stuðla að umhverfisvænni framleiðsluháttum. Vissulega þarf að leggja í nokkurn kostnað til að einangra próteinin en með tiltölulega einföldum síunarbúnaði mætti ná umtalsverðu magni þeirra próteina sem nú fara forgörðum í frárennsli fiskvinnslustöðva.

Flök af þorski metin

Verkefnið var unnið af sérfræðingum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (nú Matís ohf) í samvinnu við Brim og Toppfisk styrkt af AVS sjóðnum.

IS