Hér við land er víða að finna beltisþara (Saccharina latissima) í töluverðu magni en sennilega er hvergi jafnmikið af honum og í Breiðafirði. Hugmyndir hafa verið uppi um mögulega nýtingu beltisþara og því var ráðist í rannsóknir á þeim atriðum sem hafa þarf í huga til að fá sem besta vöru úr hráefninu.
Uppskerutími þarans er í maí og júní en þá er hann laus við ásætur að mestu leyti. Mismunandi efnainnihald reyndist vera í þaranum eftir aldri hans, ungur beltisþari innihélt t.a.m. minna prótein og salt en ársgamall beltisþari sem safnað var á sama tíma, joðmagn reyndist hinsvegar hærra í yngri þaranum. Töluverður munur kom í ljós á útliti, bragði og áferð eftir þeirri meðhöndlun sem þarinn fékk.
Réttur uppskerutími og meðhöndlun geta því haft úrslitaáhrif á gæði hráefnisins og þeirra afurða sem unnar eru úr því.
Verkefnið var styrkt af AVS sjóðnum og unnið í samstarfi Matís og Íslenskrar bláskeljar í Stykkishólmi. Skýrslu um verkefnið má finna á vefsíðu Matís, nánari upplýsingar veitir Þóra Valsdóttir hjá Matís.