Matís fékk styrk úr Matvælasjóði árið 2022 til að vinna verkefnið Nýjar lausnir fyrir vinnu við merkingar matvæla. Verkefninu er sérstaklega ætlað að auðvelda smáframleiðendum matvæla að upppfylla kröfur um merkingar á nýjum framleiðsluvörum. Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) eru samstarfsaðilar í verkefninu.
Í þessum tilgangi hefur verið unnið að leiðbeiningum, söfnun gagna um hráefni og skráningu þeirra í íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) hjá Matís. Jafnframt hefur verið unnið að þróun einfalds reiknitóls til að setja fram næringargildi framleiðsluvara. Loks hefur framsetning á næringargildisupplýsingum á vefsíðu Matís verið endurbætt. Hægt er að leita að fæðutegundum og hráefnum á vefsíðu Matís og birtist þá listi yfir næringarefnin. Framsetningin er nú mun greinilegri en áður og er næringarefnunum skipt upp í flokka. Í ljós kom að gögn fyrir sum næringarefnin voru orðin gömul og óáreiðanleg og því eru birtar upplýsingar um færri efni en áður. Matís var í samstarfi við Ívar Gunnarsson tölvunarfræðing hjá Hugsjá í þessu verkefni og á hann heiðurinn af forritunarvinnunni.