Fréttir

Gagnasöfnun um öryggi matvæla er mikilvæg íslenska lífhagkerfinu

Rannsóknastofa Matís, sem er sjálfstæð rekstrareining innan sviðsins Mælingar og miðlun, sinnir alþjóðlega faggildri mælingarþjónustu og á hverju ári eru þúsundir sýna frá opinberum eftirlitsaðilum og aðilum úr atvinnulífinu rannsökuð fyrir efna- og örverufræðilegum þáttum. Mælingar snúa að gæða og öryggismælingum fyrir m.a. matvæla-, fóður-, lyfja- og líftækniiðnað auk mælinga sem tengjast heilbrigðis- og umhverfismálum.

Rannsóknastofan er tilvísunarrannsóknarstofa Íslands á sviði örverumælinga í skelfiski og mælinga á Salmonella í matvælum. Það er Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sem tilnefnir tilvísunarrannsóknastofur sem starfa í samstarfi við aðrar tilvísunarrannsóknastofur á Evrópska efnahagssvæðinu. Lögbundið hlutverk og helstu skyldur tilvísunarrannsóknastofa eru margvísleg og felast m.a. í samræmingu á starfsemi tilnefndra opinberra rannsókna í hverju landi. Þetta felur í sér m.a. ráðgjöf og leiðbeiningar um mæliaðferðir, þátttöku í þróun og sannprófun mæliaðferða og skipulagningu samanburðarprófana.  Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að rannsóknastofan verði einnig tilnefnd sem tilvísunarrannsóknastofa á sviði sjúkdómsvaldandi E. coli baktería, Listeria monocytogenes og Staphylococcus aureus á árinu 2015.

Rannsóknarstofan er ein sú fullkomnasta á landinu og getur mætt margvíslegum þörfum viðskiptamanna með breiðu umfangi faggildra mæliaðferða á mörgum mismunandi sviðum. Rannsóknastofan er einnig mjög vel tengd við margar erlendar rannsóknastofur og getur haft milligöngu með mælingar sem ekki er hægt að gera á Íslandi á hagstæðum kjörum og hraðri afgreiðslu.

Sviðið býr yfir víðtækum gagnagrunni með mælingarniðurstöðum sem gagnast viðskiptavinum við greiningu og úrvinnslu sinna gagna en ekki síður rannsakendum og opinberum eftirlitsaðilum þar sem er gagnagrunnurinn er mikilvæg langtíma heimild með marga úrvinnslumöguleika á mæliniðurstöðum og öðrum hliðstæðum gögnum.

Sú gagnasöfnun sem á sér stað á sviðinu er einkar mikilvæg fyrir lífhagkerfið þar sem reynt er að koma í veg fyrir neyslu manna og dýra á skaðlegum efnum og örverum. Nýjar hugmyndir um fullvinnslu afurða og sjálfbærni fela í sér ákveðna áhættu og áskoranir, þar sem unnið er með ný hráefni sem áður flokkuðust sem úrgangur eða voru alls ekki nýtt. Í því samhengi er margt óljóst og sérstaklega þegar kröfur um sjálfbæra og lífræna framleiðslu er um að ræða þar sem tækifæri til að hreinsa matvælin eða beita rotvörnum eru takmarkaðri. Þá þarfnast nýjar fæðutegundir rannsókna og gagnaupplýsinga þar sem þær geta hugsanlega innihaldið áður óþekkt eiturefni auk þess sem sá möguleiki er fyrir hendi að við blöndun á ólíkum hráefnum verði til óheilnæm vara.

Nánari upplýsingar veitir Franklín Georgsson, sviðsstjóri.

IS