Starfsemi Matís virðist vekja vaxandi athygli, fylgifiskur þeirrar velgengni er aukinn gestagangur hjá Matís. Innlendir sem og erlendir aðilar banka á dyrnar og vilja gjarnan kynnast Matís betur.
Síðustu daga hefur verið gestkvæmt hjá Matís á Vínlandsleið 12. Matís fékk nýlega formann og framkvæmdastjóra Samtaka Iðnaðarins í heimsókn til sín. Sveinn Margeirsson forstjóri Matís tók á móti Guðrúnu Hafsteinsdóttur og Almari Guðmundssyni. Að lokinni kynningu á starfsemi fyrirtækisins ræddu þau árangur farsæls samstarfs síðustu tíu ár og frekari möguleika til áframhaldandi samstarfs til eflingar íslensks atvinnulífs.
Þá bar danska gesti að garði þegar sjö manns frá Thisted Kommúnu á Jótlandi litu inn til Matís. Danirnir komu hingað til lands í von um að hugmyndaauðgi og nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi síðustu áratuga gæti veitt þeim innblástur til góðra verka á áhrifasvæði Hanstholm hafnar. Auk Matís höfðu hinir dönsku gestir viðkomu hjá Vísi í Grindavík hið minnsta.
Loks kom færeysk viðskiptasendinefnd við hjá Matís ásamt atvinnu- og utanríkismálaráðherra Færeyja í síðustu viku. Í tengslum við heimsóknina var farið yfir þróun samstarfs Matís við færeyska aðila undanfarinn áratug auk útlistunar á þeim tækifærum sem liggja í ábyrgri sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins til aukinnar verðmætasköpunar, bætts matvælaöryggis og bættrar lýðheilsu. Arnljótur B. Bergsson kynnti fyrir Færeyingunum starfsemi Matís.