Þann 27. ágúst sl. tók Matís á móti 7 manna hópi frá Joint Research Center (JRC) en Sameiginlega Rannsóknamiðstöðin – JRC – samanstendur af nokkrum rannsóknarmiðstöðvum sem fjámagnaðar eru af 7. Rammaáætlun og ætlað er að styðja við stefnumótun, þróun og framkvæmd stefnumála Evrópusambandsins. Móttakan fór fram í húsnæði Líftæknisviðs Matís, Prokaria, að Gylfaflöt í Grafarvogi.
Hópurinn kynnti sér starfsemina og fékk til þess kynningu á fyrirtækinu frá Sjöfnu Sigurgísladóttur, forstjóra Matís, og einnig kynningu á Líftæknisviði frá Ragnari Jóhannssyni, sviðsstjóra. Að kynningunum loknum leiddi Ragnar hópinn um húsnæðið, sýndi þeim rannsóknarstofur Líftæknisviðsins og sagði nánar frá helstu þáttum starfseminnar. Að lokum kom hópurinn saman í matsal fyrirtækisins og tók óformlegt spjall, en líflegt, ásamt því að njóta léttra veitinga.
Hópinn sem heimsótti Matís að þessu sinni skipuðu meðal annarra: Elke Anklam, forstjóri Heilbrigðis- og neytendamálastofnunar EU, Roger Hurst frá Orkustofnun EU, Frank Raes frá stofnun um umhverfismál og sjálfbærni innan EU, og Thomas Barbas frá stofnun um öryggi og verndun þegna innan EU.