Fréttir

Grandskoðum þann gula frá miðum í maga

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á síðastliðnum árum hefur krafa neytenda um matvöru sem framleidd er á vistvænan hátt aukist til muna og erlendir kaupendur á íslenskum fiski leggja því mikil áherslu á gæði og rekjanleika í fiskvinnslu ásamt jákvæðri ímynd um hollan og ómengaðan fisk.

Markmið verkefnisins er að safna ítarlegri upplýsingum en áður hefur verið gert um eiginleika þorsks í gegnum alla virðiskeðjuna eða allt frá miðum og í maga með nákvæman rekjanleika að leiðarljósi.

Í virðiskeðju íslenskra sjávarafurða eru gerðar fjölmargar mælingar. Margar þessara mælinga eru framkvæmdar af opinberum aðilum í misjöfnum tilgangi. Þetta verkefni er samstarf Matís, Hafrannsóknarstofnunar, Fiskistofu, fiskvinnslu Guðmundar Runólfssonar og HB Granda. Með þessu samstarfi er hægt að ná mikilli hagkvæmni með því að nýta veiði- , eftirlits- og rannsóknarferðir til sýnatöku og mælinga. Efna- og vinnslumælingar eru á ábyrgð Matís.

Verkefnið er mjög fjölþætt og er meðal annars ætlað að svara neðangreindum spurningum:

  1. Er samband á milli holdafars þorsks og fituinnihalds lifrar?
  2. Eru tengsl á milli fituinnihalds lifrar og lifrarstuðuls?
  3. Hefur fituinnihald lifrar áhrif á nýtingu þorsks í vinnslu ?
  4. Hvernig hefur kyn, aldur og kynþroski áhrif á vinnslueiginleika eins og flakanýtingu, los o.fl og hvernig má nýta slíkar upplýsingar í vinnsluspám ?
  5. Getur þorskur verið uppspretta efna sem skortir í fæðu Íslendinga ?
  6. Er magn efna ( næringarefna og óæskilegra efna) mismunandi milli veiðisvæða?
  7. Er árstíðabundinn munur á magni efna?
  8. Er munur á magni óæskilegra efna í unnum fiski og fiski sem kemur beint úr sjó ?
  9. Hvernig eru tengsl á milli magns óæskilegra efna í þorski og aldurs, kyns og búsvæðis hans ?

Á fyrsta verkefnisárinu var þorski safnað úr sjö veiðiferðum. Teknir voru þrjátíu þorskar í hvert skiptið, þeim fylgt eftir í gegn um vinnslu og í efnamælingar, ítarlegar upplýsingar um hann voru skrásettar á öllum stigum s.s. veiðistaður, stærð, aldur, þyngd lifrar, nýting, ormar o.s.frv. Auk þess eru vatnsheldni og vatn mælt í öllum sýnum og snefilefni og PCB efni í völdum sýnum. Í tveimur veiðiferðum (Hafróröllum) voru ennfremur tekin samtals 400 lifrarsýni, í þeim hefur verið mæld fita og vatn en þessar upplýsingar á m.a. að nýta til að rannsaka samband á milli holdafars þorsks og fituinnihalds lifrar.

Sýnatökur tókust vel, en það hefur reynst nauðsynlegt að fagmenn taki sýnin og framkvæmi mælingar um borð og í vinnslunni til þess að tryggja gæði þeirra gagna sem unnið er með og minnka óvissu í mælingum.

Eftir fyrsta árið er ótímabært að draga ályktanir af þeim niðurstöðum sem liggja fyrir. Gangaúrvinnslu er ekki lokið, en hún er flókin þar sem mikill fjöldi breyta kemur inn.  Mikilvægt er að nægilegur fjöldi mælinga liggi fyrir áður en ályktanir eru dregnar.  Þess má þó til gamans geta að niðurstöður benda til þess að ákveðinn munur geti verið á kynjunum þegar nýting, ormar og los er skoðað.  Virðast t.d. hrygnurnar innihalda meiri orma en hængar, en hængar mælast með meira los að meðaltali. Það verður spennandi að sjá hvort gagnaúrvinnslan sýni fram á að þetta standist eða ekki.
Verkefnisstjóri er Ásta M. Ásmundsdóttir efnafræðingur hjá Matís ohf á Akureyri.

Sjá nánar á www.avs.is.