Fréttir

Gríðarlegur áhugi á þarapasta úr íslensku byggi

Vísindavaka Rannís 2012 var haldin föstudaginn 28. september. Mikill fjöldi fólks sótti vísindavökuna og er óhætt að segja að aldrei hafi fleiri, en einmitt nú, heimsótt bás Matís.

Íslenskur þari og íslenskt þang var þemað hjá Matís að þessu sinni og var bás Matís skreyttur í þeim anda. Mikil tækifæri liggja í þaranum og þanginu og má reikna með því að á allra næstu árum verði mýmörg matvæli sem innihaldi hvorttveggja í einhverri mynd. 

Á Vísindavökunni var þarapasta úr íslensku byggi kynnt og fólki leyft að smakka. Ásóknin í þessa nýju vöru var ótrúleg og þurfti að leita að ílátum í Háskólabíói til þess að fólk gæti smakkað. Svo mikill var áhuginn að þau 200 ílát sem upphaflega áttu allt kvöldið kláruðust á fyrsta klukkutímanum.

Einnig voru húðkremin frá UNA Skincare kynnt en UNA Skincare línan er á allra vörum og gengur sala þessa lífvirka andlitskrems mjög vel (unaskincare.com/)

Svo var þaraskyrið að sjálfsögðu kynnt en nú styttist óðum í að skyrið komi á markað.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

IS