Fréttir

HACCP og framleiðsla sjávarfangs

HACCP – bókin sem nú birtist á vefnum er ætluð sem stuðningsefni fyrir þá sem vilja kynna sér HACCP og uppsetningu slíks kerfis í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þetta fræðsluefni er liður í því að koma á framfæri þekkingu til þeirra sem bera ábyrgð á öruggri matvælaframleiðslu.

Það er ekki einfalt mál að tryggja öryggi neytenda og sjá til þess að allir geti verið vissir um að maturinn sem er á boðstólum sé öruggur. Á hverju ári deyja þúsundir í hinum stóra heimi vegna neyslu matar sem ekki var í lagi. Hafa verður í huga að sumir hópar neytenda eru viðkvæmari en aðrir, svo sem ung börn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Því verður að fara yfir allt ferli hverrar framleiðslu og sjá til þess með öllum tiltækum ráðum að neytendur matar verði ekki fyrir skaða vegna þess að ekki var rétt að verki staðið einhvers staðar í framleiðsluferlinu. Það er og verður ábyrgðarhlutur að framleiða matvæli og því er nauðsynlegt að setja skýran ramma utan um alla þætti matvælavinnslu og að leiðarljósi verður að hafa almannahagsmuni og öryggi neytenda.

Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur, vann texta og setti upp handbókina, Margeir Gissurarson, matvælafræðingur, var með í skipulagningu á efni, las yfir allt efnið og miðlaði af sinni þekkingu og reynslu.

Gerð þessarar handbókar var fjármögnuð af Matís með góðum stuðningi frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins.

Hjá Matís er hægt að nálgast mikinn fróðleik um flest allt sem viðkemur sjávarafurðum og allir starfsmenn fyrirtækisins eru boðnir og búnir til að gera gott betra í samvinnu við íslenskan sjávarútveg.

IS