Hafin er vinna við nýtt alþjóðlegt verkefni um hagnýtingu korns á norðurslóð. Verkefnið er styrkt af Norðurslóðaáætluninni (Northern Periphery & Arctic Programme) og er til þriggja ára. Þátttakendur eru frá Íslandi (Matís og Landbúnaðarháskólinn), Norður-Noregi, Færeyjum, Orkneyjum og Nýfundnalandi.
Þjálfun stendur fyrirtækjum til boða
Markmið verkefnisins er að auka framleiðslu matvara úr innlendu korni og finna nýjar leiðir til að hagnýta kornið. Einnig er ætlunin að auka verðmæti kornframleiðslunnar og fjölga störfum sem tengjast korni. Gerðar verða leiðbeiningar um hvernig best verði staðið að kornrækt við mismunandi skilyrði, dregnar fram upplýsingar um kornmarkaðinn og efnt til átaks í vöruþróun bökunarvara og drykkja í samvinnu við fyrirtæki.
Upplýsingamiðlun milli landa er lykilatriði í verkefninu. Fyrirtækjum í bökunar- og drykkjarvöruiðnaði stendur til boða að hagnýta margvíslegar upplýsingar auk þess sem námskeið og handleiðsla standa til boða. Þremur íslenskum fyrirtækjum í bökunariðnaði er boðið að taka þátt í námskeiðum og handleiðslu á vegum NOFIMA í Noregi. Í þessu felst vöruþróunarnámskeið vorið 2016 og námeið um markaðsmál vorið 2017 ásamt ráðgjöf á tímabilinu. NOFIMA býr yfir háþróuðu tilraunabakaríi og mikilli reynslu af þróun vara úr korni. Drykkjarvöruframleiðendur geta hagnýtt sér reynslu Orkneyinga í drykkjarvöruiðnaði.
Matís óskar eftir að fá upplýsingar frá þeim fyrirtækjum sem vilja hagnýta sér upplýsingamiðlun í verkefninu. Einnig er óskað eftir áhugasömum fyrirtækjum til að taka þátt í námskeiðunum en þau verða valin á grundvelli væntanlegs árangurs þeirra. Fyrirtæki skulu senda upplýsingar um áhuga og áform til Ólafs Reykdal hjá Matís ( olafur.reykdal@matis.is).