Fréttir

HB Grandi er samstarfsaðili World Seafood Congress 2017

HB Grandi er samstarfsaðili World Seafood Congress 2017 (#WSC_2017). Ráðstefnan fer fram á Íslandi í september og er þetta í fyrsta sinn sem viðburðurinn fer fram á Norðurlöndum. Stofnað var til ráðstefnunnar að frumkvæði Matvæla- og landbúnaðarstofnunar sameinuðu þjóðanna (FAO).

WSC er einn stærsti viðræðuvettvangur í heimi á sviði verðmætasköpunar í sjávarútvegi og matvælaöryggis. Á ráðstefnuna koma starfsmenn útgerða og fiskvinnsla, fjárfestar og sérfræðingar úr stjórnkerfi, rannsókna- og menntaumhverfinu frá öllum heimshornum.

„HB Grandi er framsækið sjávarútvegsfyrirtæki sem Matís hefur lengi unnið með í rannsókna- og nýsköpunarverkefnum. Við erum virkilega ánægð með að fá fyrirtækið til samstarfs á vettvangi ráðstefnunnar, sem mun gefa tækifæri á að kynna íslenskan sjávarútveg og nýsköpunarkraftinn sem hann hefur yfir að ráða“ sagði Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís aðspurður af þessu tilefni. 

“Það er okkur sannur heiður að styðja við umræðu um matvælaöryggi og verðmætasköpun í sjávarútvegi. HB Grandi hefur um árabil stutt ábyrga nýtingu fiskistofna og tekið þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum með það að markmiði að nýta sjávarauðlindina við Ísland sem best. World Seafood Congress er mikilvægur umræðuvettvangur um framþróun í allri virðiskeðju sjávarafurða og um þróun sjávarútvegs um allan heim,” sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðunni www.wsc2017.com

IS