Fréttir

Heilsuspillandi bakteríur leynast víða

Vissir þú að í vatnsúða geta leynst Legionella bakteríur, sem eiga það til að valda Hermannaveiki? Slíkt er þó óalgengt hér á landi, en Matís hefur nú hafið mælingar fyrir Legionellu bakteríusmiti.

Á sviðinu Mælingar og miðlun hafa nýjar mælingar hafist á Legionellu bakteríu í vatni. Bakterían berst með örfínum svifúða frá vatnsleiðslum eða vatnstönkum í lungu fólks og getur valdið alvarlegum sjúkdómum á borð við Hermannaveiki.  Vitað er um tilfelli eftir svifúðamyndun út frá gufu-og rakagjafa í grænmetisborðum í matvöruverslunum eða út frá heitum nuddpottum, en smit eiga sér oftast stað í heitara loftslagi þar sem kæliturnar og loftkæling er víða.  Hér á landi hafa greinst eitt til tíu tilfelli Legionellusýkingar á ári, ýmist af innlendum uppruna eða eftir dvöl á hótelum erlendis en lögum samkvæmt er Legionellasýking tilkynningaskyldur sjúkdómur til Landslæknisembættisins og ef grunur leikur á smiti ber að rannsaka smithættu og uppruna með sýnitöku.

Hérlendis er almennt talin lítil hætta á að bakterían geri vart við sig, þar sem lítið eru um uppsöfnun á vatni í tönkum. Þar sem slíkt á sér stað er þó um að gera að passa upp á hreinlæti og þrífa tankana reglulega.

IS