Fréttir

HÍ og Matís sameinast um eflingu menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis – Háskóli Íslands og Matís ohf. gera með sér samstarfssamning

Háskóli Íslands og Matís ohf. gerðu í dag samning sín á milli um víðtækt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís undirrituðu samninginn.

Með samningnum er grunnur lagður að frekari eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Samkomulagið er mikilvægt skref í formlegu samstarfi Matís ohf. og Háskóla Íslands um samnýtingu aðfanga, innviða rannsókna og mannauðs. Það felur í sér ásetning um að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.

Við undirritun samnings í húsakynnum Matís í morgun
Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.

Á sama tíma var gerður sérstakur samningur milli Matvæla- og næringarfræðideildar HÍ og Matís um samstarf í kennslu og rannsóknum.

Háskóli Íslands og Matís hafa átt í farsælu samstarfi um langt skeið um kennslu en starfsmenn Matís hafa í gegnum tíðina kennt við HÍ og munu gera það áfram. Báðir aðilar hafa byggt upp mikla þekkingu á  matvælafræði, líftækni, erfðafræði og fleiri greinum. Sem dæmi þá hafa starfsmenn sem starfa bæði hjá Matís og HÍ birt tæplega 90 vísindagreinar í ritrýndum tímaritum á sl. þremur árum og á sama tímabili hafa 10 nemendur varið doktorsritgerðir sínar og 15 meistaranemendur útskrifast þar sem verkefnin hafa verið unnin í samstarfi Matís og Háskóla Íslands. Í dag eru átta doktorsnemendur og 19 nemendur í meistaranámi við HÍ að vinna sín rannsóknaverkefni með Matís. Auk þess hafa Matís og HÍ sótt um og eru saman í nokkrum alþjóðlegum verkefnum.

Mikilvægt er að samnýta þessa þekkingu í tengslum við í nýsköpun og aukna verðmætasköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi.

Matís er leiðandi á Íslandi í rannsóknum  á sviði matvælaframleiðslu, og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við Háskóla Íslands að kennslu og þjálfun nemenda.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2016, þar sem m.a. er lögð áhersla á doktorsnám, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís ohf. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís ohf. fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Helstu atriði samnings Háskóla Íslands og Matís ohf. eru:

  • Efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.
  • Auka rannsóknir á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis og vera jafnframt í fararbroddi í nýsköpun á þessum fræðasviðum.
  • Vera leiðandi á völdum sérfræðisviðum og hafa faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Tryggja að gæði rannsókna samningsaðila séu sambærileg á við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi.
  • Nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna.
  • Fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi á fræðasviðum samningsins.

Auk þess munu samningsaðilar leitast við að tengja starfsemi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og starfsstöðva Matís ohf. utan Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar veita Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

IS