Fjórir fulltrúar frá verslunarkeðjunni Whole Foods Market heimsóttu Sjávarútvegshúsið í morgun, til að fræðast um íslenskan fisk, rannsóknir á sjávarafurðum og hvernig Íslendingar stjórna fiskveiðum sínum.
Nokkuð gestkvæmt hefur verið í Sjávarútvegshúsinu að undanförnu, en aðeins eru nokkrir dagar síðan hér voru á ferð aðilar frá Marks & Spencer verslunarkeðjunni í Bretlandi. Vonandi er þetta til marks um vaxandi áhuga erlendis á íslenskum fiski og sjávarafurðum og þeirri staðreynd að fiskur er ekki bara góður og hollur, heldur sýna rannsóknir, m.a. sem Rf hefur gert, að óvenju lítið er að finna af óæskilegum efnum í þeim fiski sem veiddur er hér við land.
Whole Foods Market verslunarkeðjan er trúlega stærsta sinnar tegundar, en á vefsíðu WFM segir að keðjan reki 155 verslanir í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Verslunarkeðjan sérhæfir sig í sölu á „náttúrulegum“ og lífrænt ræktuðum matvælum.
Það er Baldvin Jónsson, markaðssérfræðingur og verkefnisstjóri Áforms, sem annaðist Íslandsför hópsins frá WFM, en Baldvin hefur starfað að markaðssetningu Íslands og íslenskum afurðum um langt skeið. Hann á m.a. stóran þátt í velgengni Fun and Food- hátíðarinnar sem nú er haldin hér árlega með eftirtektarverðum árangri .