Fréttir

Hörður G. Kristinsson hjá Matís hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2011

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir 2011 voru afhent á Rannsóknaþingi Rannís miðvikudaginn 8. júní.

Dr. Hörður G. Kristinsson rannsóknastjóri Matís og sviðsstjóri líftækni- og lífefnasviðs hlaut viðurkenninguna að þessu sinni. Tók Hörður við viðurkenningunni úr hendi forsætisráðherra sem jafnframt er formaður Vísinda- og tækniráðs.

Hörður er fæddur árið 1972. Hann lauk grunnnámi í líffræði frá Háskóla Íslands 1996 og hélt þá til Bandaríkjanna í frekara nám. Í meistaranámi sínu við Washington háskóla í Seattle vann hann við rannsóknir á nýtingu aukaafurða sjávarfangs með notkun ensíma, en slík tækni er nú notuð víða um heim með góðum árangri. Árið 2001 lauk hann doktorsnámi í matvælalífefnafræði frá Massachusetts háskóla þar sem hann lagði stund á rannsóknir á eiginleikum fiskipróteina. Niðurstöður doktorsverkefnis hans hafa nýst við að þróa nýja tækni til að einangra og nýta prótein úr aukaafurðum og vannýttum fiskitegundum, eins og kolmunna og loðnu. Því má segja að þær hafi bæði bætt í þekkingarbrunn okkar um sjávarafurðir auk þess að hafa haft mikið hagnýtt gildi.  Á síðasta ári Harðar í doktorsnámi var honum boðin staða lektors við matvæla- og næringarfræðideild Flórídaháskóla, sem er ein sú stærsta og framsæknasta í BNA. Þar byggði hann upp frá grunni öfluga rannsóknastofu á sviði matvælalífefnafræði með sérstaka áherslu á nýtingu sjávarfangs. Hörður flutti til Íslands 2007 og hóf störf hjá Matís árið 2008 en gegnir jafnframt dósentsstöðu við Flórídaháskóla.

Hörður hefur verið brautryðjandi við að byggja upp rannsóknir á lífefnum og lífvirkum efnum úr íslenskri náttúru. Hann gegndi lykilhlutverki við uppbyggingu á Líftæknisetri Matís á Sauðárkróki sem opnaði 2008. Þar vinna sérfræðingar að innlendum og erlendum rannsóknaverkefnum í náinni samvinnu við matvælaiðnaðinn í Skagafirði sem og annars staðar í landinu. Þar er lögð áhersla á að bjóða upp á aðstöðu og sérfræðiaðstoð til að þróa bæði afurðir og framleiðsluferla með það að markmiði að hraða ferlinu frá hugmynd til afurðar og lækka þannig kostnað við þróunina. Í sama anda má einnig nefna nýja aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki hjá Matís sem nefnist Brúin. Þar er nú að finna öflug líftæknifyrirtæki eins og Kerecis og Primex sem búa að nálægðinni við Hörð og samstarfsfólk hans.

Rannsóknir Harðar hafa haft mikið hagnýtt gildi og er hann handhafi þriggja birtra einkaleyfa. Hörður hefur birt efni um rannsóknir sínar í virtum ritrýndum vísindaritum og flutt fyrirlestra á ráðstefnum víða um heim. Hann er virkur í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og stýrir nokkrum fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum nú um stundir. Hörður hefur einnig verið virkur í kennslu og eru doktorsnemar hans eru orðnir tíu talsins og meistaranemarnir níu.

Í störfum sínum hefur Hörður sýnt að hann er afbragðs vísindamaður, kennari og stjórnandi. Hann hefur sýnt frumkvæði og veitt forystu við uppbyggingu á nýju fræðasviði sem nú þegar er farið að skila arði inn í þjóðarbúið. Hann er góð fyrirmynd nemenda og samstarfsmanna og lykilstarfsmaður í vaxandi fyrirtæki. Það var einróma álit dómnefndar Hvatningarverðlaunanna að Hörður G. Kristinsson uppfylli öll viðmið hennar og sé því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2010.

Forsætisráðherra og Hörður
Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, afhenti Herði Hvatningarverðlaunin

Um Hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapi væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin, sem nú eru 2 milljónir króna, hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.

Nánari upplýsingar veitir Hörður í síma 858-5063.