Fréttir

Hvernig verða staðbundin matvæli nýtt í ferðaþjónustu árið 2040?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Séu heimamenn stoltir af menningararfinum, leggi áherslu á hefðir og siði matarmenningar ásamt því að hafa sérstöðu matvæla á mismunandi svæðum að leiðarljósi, hefur matartengd ferðaþjónusta á Norðurlöndunum góð skilyrði til að aukast í framtíðinni.   

Matarhefð er stór hluti af ímynd lands og þjóðar enda endurspeglar hún menningu og sögu og markast af tíðarfari og náttúru hvers lands fyrir sig. Matarupplifun er órjúfanlegur hluti  af upplifun  ferðamanna hvar sem þeir koma.

Á Norðurlöndum hefur orðið mikil vitundarvakning á þeim verðmætum sem liggja í svæðisbundinni matargerð bæði hvað varðar nýsköpun, þróun og neyslu fyrir heimamenn sem og erlenda gesti. Að sama skapi er sí aukin áhersla lögð á sjálfbærni í matvælaframleiðslu sem og ferðaþjónustu þannig að jafnvægi milli vaxtar og verndar sé gætt.

Verkefninu Nordic Food in Tourism er nýlokið. Markmið þess var að kanna hvernig ferðamenn og aðrir gestir tala um eða skynja norrænan mat, varpa ljósi á mikilvægi staðbundinna matvæla í sjálfbærri ferðaþjónustu og öðlast innsýn í hvernig loftslags-, neyslubreytingar og aðrar breytur  geta mótað framtíð matar í ferðaþjónustu. Tilgangurinn var að vekja athygli á framtíðaráskorunum og tækifærum tengdum mat í ferðaþjónustu og veita stefnumótandi leiðbeiningar sem styðja við framtíðaraðgerðir og stefnumótun á Norðurlöndunum sem samræmast einnig markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Matur er öflugt markaðsafl í ferðaþjónustu. Náttúra, menning, hrein orka og iðandi mannlíf eru auðlindir sem hafa aðdráttarafl og hefur Ísland allt til að bera til að samþætta þetta fernt í markaðssetningu á mat í ferðaþjónustu. Þörf er á markvissri kynningarstefnu sem hefur það að markmiði að skapa áhuga og eftirspurn eftir matartengdri afþreyingu og nærsamfélagsneyslu en ekki síður að bregðast við þeim áhuga og þeirri eftirspurn sem þegar er til staðar. Efla þarf samfélagsvitund um þá sérstöðu til matvælaframleiðslu sem við búum við, þekkingu á matararfleifð okkar og tækifæri til framtíðar.

Að byggja upp áfangastað sem ætlar að skipa sér sess sem eftirsóttur mataráfangastaður innan Evrópu krefst öflugrar samvinnu og samtakamáttar til að slagkraftur skilaboðanna verði sterkur. Þjónusta og gæði þurfa að fylgjast að við markaðssetningu og innviðir þurfa að vera tilbúnir til að standa undir fyrirheitum og væntingum.

Mikilvægt er að horfa á virðiskeðju matvæla þar sem gæði hráefnisins eru undirstaðan en ánægja og upplifun neytenda ráða eftirspurn.

Hér skiptir máli að neytendur og frumframleiðendur hlusti á hvorn annan til að ýta undir þá þróun sem markaðurinn kallar eftir, með sjálfbærni að leiðarljósi. Mikilvægt er að stuðla að þróun og nýsköpun með hliðsjón af vannýttum auðlindum og matvælastefnu sem miðar að lágmörkun sóunar. Nauðsynlegt er að huga að framtíðar-sviðsmyndum, skipulagi og samvinnu.

Verkefnið Nordic food in Tourism var eitt af þremur formennskuverkefnum norrænu ráðherranefndarinnar undir hatti sjálfbærrar ferðamennsku í norðri. Menningar- og viðskiptaráðuneytið (áður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið) leiddi verkefnið í samstarfi við Íslenska ferðaklasann og Matís. Norrænir samstarfsaðilar komu frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Grænlandi, Færeyjum, Álandseyjum og Finnlandi auk þess sem sérfræði hópur frá háskólum og atvinnulífi kom að verkefninu.  Niðurstöður verkefnisins byggja á greiningum gagna, aðferðum framtíðarfræða, viðtölum við sérfræðinga og niðurstöðum vinnustofa með hagaðilum.

Niðurstöðurnar eru birtar í tveimur skýrslum, annars vegar þar sem áherslan er á framtíðarsýn og stefnumótandi leiðbeiningar í tengslum við mat í ferðamennsku á Norðurlöndunum og hins vegar á Íslandi:

Við hvetjum fólk til að nýta þessar niðurstöður enda veita þær innblástur til frekara samstarfs, uppbyggingar, fjárfestingar og nýsköpunar í mat í ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi. Skýrslurnar og frekari upplýsingar má finna á vefsíðu verkefnisins; Nordicfoodintourism.is