Flestum er ljóst að ótrúlegar framfarir hafa átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Nú þegar miklar tæknilegar umbyltingar eiga sér stað í allri framleiðslukeðju matvæla þá sér ekki fyrir endann á þessum framförum. Á síðastliðnum 30 árum hefur íslenskur sjávarútvegur minnkað áherslu á veitt magn og aukið áherslu á gæði sem skilar meiru fyrir hvert kg af afla en áður. Grunninn að slíkri verðmætaaukningu er að finna í bættri nýtingu afla. Og til þess að geta nýtt afla betur er mikilvægt að þekkja alla virðiskeðjuna og bæta meðferð á öllum stigum keðjunnar. Þarna koma rannsóknir að.
Rannsóknir í sjávarútvegi
Rekja má rannsóknir í sjávarútvegi aftur til ársins 1934 þegar Rannsóknarstofu Fiskifélags Íslands var komið á fót en á grunni hennar varð Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins til árið 1965 (Matís frá 2007). Mikilvægar vörður á þeirri vegferð eru tilkoma Fiskvinnsluskólans um 1970, upphaf matvælafræðikennslu við Háskóla Íslands 1978, stofnun sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri 1990 og stöku sjóðir sem styrktu rannsóknir.
Tilkoma rannsóknasjóðs í sjávarútvegi
Mikilvægustu skrefin á síðari árum voru stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi árið 2003, en AVS stendur fyrir aukið verðmæti sjávarfangs, og Tækniþróunarsjóðs Rannís árið eftir. Ráðamenn þess tíma tóku alvarlega ábendingum um að það þyrfti framþróun á þessu sviði og með tilkomu sjóðanna hefur samstarf rannsóknaaðila við fyrirtæki í sjávarútvegi aukist mikið og menntuðum einstaklingum í greininni fjölgað. Afraksturinn kann að hljóma ótrúlega. Með markvissum rannsóknum hefur verðmætasköpunin aukist svo stórkostlega að mælt er í milljarðatugum. Sem dæmi má nefna að fyrstu árin fór allur makríll í bræðslu en með niðurstöðum úr rannsóknum þá jókst skilningur á því hvernig best væri að meðhöndla makrílinn þannig að úr yrði fyrirtaks vara til manneldis. Íslendingum var sagt að þetta væri ekki hægt en í stað þess að sættast á að makríll veiddur hér við land nýttist einungis til fóðurframleiðslu þá varð niðurstaðan sú að nú er verðmæti makrílsins um 20 milljarðar á ári.
Meðferð afla – gerum ekki gull úr skít!
Meðferð afla er lykilatriði þegar kemur að aukinni nýtingu. Þekking á meðferð kemur frá rannsóknum. Rétt þarf að standa að blæðingu, þvotti og kælingu og annarri meðhöndlun afla. Sama lögmál gildir fyrir öll skip í íslenska flotanum og það lögmál er vönduð blæðing og kæling og enn meiri kæling á aflanum; standa þarf rétt að blæðingu og kælingu aflans – alltaf! Íslenskur sjávarútvegur ætlar ekki að keppa um markaðinn á magni heldur á gæðum aflans. Slík hugsun er ekki síst mikilvæg þegar kemur að því að nýta þá takmörkuðu auðlind sem sjórinn geymir. Sjálfbær nýting á auðlindum hafs og vatna, í bláa lífhagkerfinu, er nauðsynleg fyrir okkur Íslendinga. Rannsóknir styðja við að það sé gert á sem bestan hátt.
Ekki rusl heldur verðmæt aukahráefni
Keðjuverkun í sjávarútvegi, með virðiskeðjunálgun hefur haft áhrif; það er auðveldara að fá gott verð fyrir hráefni sem meðhöndlað hefur verið af kostgæfni. Hitt sem bætt meðferð hefur skilað, eru tækifærin til nýtingar á því sem vannýtt hafði verið í sögulegu tilliti. Mikil verðmætasköpun er í dag hjá fyrirtækjum sem koma í kjölfar framþróunar í sjávarútvegi almennt, t.a.m. hjá aðilum sem eru að vinna með svokölluð aukahráefni en til þess að nýta þau þá er nauðsynlegt að hráefnisgæðin séu í lagi; blæðing og kæling eru lykilatriði. Þetta vitum við vegna rannsókna sem framkvæmdar hafa verið undanfarna áratugi.
Verðmætasköpun er lykill
Ísland er land tækifæra í sjálfbærri nýtingu hreinnar náttúru, t.d. í framleiðslu heilnæmra matvæla, virkra lífefna og jákvæðri upplifun af neyslu íslenskra matvæla. Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu og hefur fyrirtækið verið í fararbroddi aukinnar verðmætasköpunar úr sjávarfangi. Verðmæti úr hverju veiddu tonni af fiski hefur aukist um 145% frá árinu 2003, fram til 2016. Sú aukning gerðist ekki af sjálfu sér, heldur gerðist hún með því að tengja saman vísindi, atvinnulífið, frumkvöðla og menntasamfélagið. Matís hefur, í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra háskóla, tengt vísindi og dagleg viðfangsefni fyrirtækja í 23 doktorsverkefnum og 64 meistaraverkefnum sem liði í stærri rannsóknaverkefnum. Sérfræðingar Matís auðvelda hagnýtingu niðurstaðna vísindarannsókna og brúa bil á milli fyrirtækja og háskóla. Það er sama hvernig við lítum á málin, lykilatriði í verðmætasköpun samtímans og til framtíðar er samspil vísinda og praktískra áskorana fyrirtækja. Samvinnan hefur skilað okkur miklum þjóðhagslegum ávinningi, hún hefur verið að styrkjast og hefur alla burði til að styrkjast enn meira.
Hér eru nokkur dæmi um þátttöku Matís í íslenskum sjávarútvegi
- Ankra – Aðstaða til pökkunar.
- Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða – Greining samkeppnishæfni vestfirsks sjávarútvegs, aðstoð við skipulagningu og framkvæmd ráðstefna um málefni vestfirsks atvinnulífs.
- Brim – Vinnsluspá grálúðu, rannsóknir á þorsklifur, ofurkæling fiskflaka, þróun vinnsludekks á línuskipum.
- Codland – Rannsókna- og þróunarsamstarf, aðstoð við formun verkefna, mælingar og prófanir, eðlisgreining kollagens, norrænar tengingar, hreinsun lýsis.
- Eimskip – Rannsóknir sem stuðluðu að þróun flutnings ferskra sjávarafurða.
- FISK – Vinnsluspá þorsks, léttsöltun fiskflaka, ferlastýring á vinnsludekki bolfiskskipa, ofurkæling, aflameðferð bolfisks, kæling makríls, rannsóknir á þorsklifur, vistferlagreining fiskafurða.
- Frostmark – Úttektir og prófanir búnaðar.
- Grímur kokkur – Samstarf um auðgun sjávarrétta, ráðgjöf um framleiðsluferli.
- HB Grandi – Samstarf í rannsókna- og þróunarstarfi þ.m.t. á sviði aflameðferðar og vinnslu uppsjávarfiska, s.s. gæði og stöðugleiki karfaafurða, ferlastýring á vinnsludekki bolfiskskipa, rafþurrkun fiskimjöls, stöðugleiki ferskra flakaafurða í útflutningi.
- Icelandair – Rannsóknir sem stuðluðu að þróun flutnings ferskra sjávarafurða.
- Iceprotein – Þjálfun starfsmanna, uppsetning aðferða, samstarf í verkefnum í tengslum við matvælavinnslu.
- Ísfélag Vestmannaeyja – Aflameðferð, kæling makríls og stöðugleiki afurða.
- Kerecis – Aðstaða í Reykjavík og aðstaða á Ísafirði í upphafi reksturs, rannsóknir á eiginleikum þorskroðs.
- Landsamband smábátaeigenda – Aflameðferð; blóðgun, blæðing, þvottur og kæling – kennsluefni, leiðbeiningar, smáforrit og námskeið, átaksverkefnið Fallegur fiskur, verðmætasköpun úr grásleppu.
- Laxá – Þróun á fóðri til fiskeldis.
- Lýsi – Rannsóknir á breytileika og stöðugleika þorsklifrar, gæðaflokkun lifrar.
- Marel – Margvíslegt samstarf m.a. um sjálfvirkan beinskurð hvítfiskflaka, þróun mælitækni, forsnyrting flaka, erindi á Whitefish ShowHow.
- Margildi – Aðstaða, ráðgjöf, greining eiginleika og stöðugleika lýsis, uppsetning markaðsefnis.
- Oddi hf. – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks, vistferlagreining fiskafurða.
- Prentsmiðjan Oddi – prófun á umbúðum.
- Primex – Þjálfun þróunarstjóra, samstarf í rannsókna- og þróunarverkefnum varðandi nýtingu afurða Primex til lengingar geymsluþols ferskfisks.
- Reiknistofa fiskmarkaðanna – aðstoð við bætta starfshætti á fiskmörkuðum og þátttaka í þarfagreiningu uppboðskerfis.
- Samherji – Vinnsluspá þorsks, aflameðferð og vinnsla uppsjávarfiska sérstaklega makríls, þróun framleiðslu umbúða og flutnings ferskra sjávarafurða, ofurkæling fiskflaka.
- Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – Samstarf um upplýsingar um næringarefnainnihald íslenskra sjávarafurða.
- Síldarvinnslan – Aflameðferð makríls og stöðugleiki afurða, vinnsluþróun loðnuhrogna, makrílflaka, rauðátu, ofurkæling uppsjávarfiska, bætt nýting aukaafurða uppsjávarfiska, öryggi afurða, flökun á síld.
- Skaginn 3X – Filtrex búnaður, Rótex búnaður, ofurkæling, þróun vinnsluferla í bolfiski sem og uppsjávarfiski, frysting uppsjávarfisks.
- Skinney Þinganes – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks, stöðugleiki makríl afurða, humarverkefni.
- Sæplast – Hönnun og prófanir á umbúðum.
- Thor-Ice – Þróun kæliferla með vökva ís, makríl og bolfisk.
- True Westfjords – Þróun nýs framleiðsluferils bolfiskslýsis, könnun á aðgreiningarmöguleikum lýsis út frá fitusýrusamsetningu.
- Vignir G. Jónsson – Fiskiperlur, aðstaða til prófana vegna vöruþróunar.
- Vinnslustöðin – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks.
- Vísir – Vinnsluspá þorsks, ferlastýring við saltfiskframleiðslu, vísindaleg úttekt á vinnsluferli og eiginleikum nýrra saltfiskafurða, úttekt á áhrifum söltunaraðferða á eðliseiginleika afurða, þróun vinnsludekks á línuskipum.
- Þorbjörn – Ferlastýring við saltfiskframleiðslu, vísindaleg úttekt á vinnsluferli og eiginleikum nýrra saltfiskafurða, úttekt á áhrifum söltunaraðferða á eðliseiginleika afurða.
Og það er meira til!
Greinin hér að ofan birtist fyrst í Fiskifréttum: http://www.fiskifrettir.is/…/hvers-virdi-er-starfse…/142433/