Fréttir

Hvert er sótspor ferskra þorskhnakka frá Íslandi?

Í seinni tíð hefur krafan um sjálfbæra nýtingu og lágmörkun umhverfisáhrifa í framleiðslu á matvælum aukist mikið á mörkuðum sem eru mikilvægir fyrir ferskfiskafurðir okkar Íslendinga.

Kröfum um sjálfbæra nýtingu fiskistofna hefur verið svarað með umhverfisvottunum, en upplýsingar um heildarumhverfisáhrif íslenskra sjávarafurða og samanburð við samkeppnisvörur hefur skort. Því tóku nokkur fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og markaðssetningu á ferskum þorskhnökkum saman höndum og létu framkvæma vistferilsgreiningu (Life Cycle Assessment) á afurðum sínum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að umhverfisálag ferskra íslenskra þorskhnakka er tiltölulega lágt í samanburði við okkar helstu samkeppnisaðila í sjávarútvegi og mun lægra en frá kjötafurðum.

Afurðir frá fjórum framleiðendum og af sjö mismunandi fiskiskipum sem seldar eru í Bretlandi og í Sviss voru rannsakaðar og niðurstöðurnar bornar saman við sambærilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið annarsstaðar í heiminum. Nokkur munur er á sótspori einstakra skipa eftir stærð, veiðarfærum, kvótastöðu og útgerðarmynstri, en meðaltalsniðurstöður rannsóknarinnar sýna að sótspor ferskra þorskhnakka er um 0,8 Kg CO2 ígildi / Kg hnakkar þegar búið er að vinna aflann. Flutningur með skipi til Bretlands eða Sviss bætir frekar litlu við sótsportið, en ef afurðirnar eru fluttar með flugi getur sótsporið allt að þrefaldast, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Séu þessar niðurstöður bornar saman við niðurstöður sambærilegra rannsókna annarsstaðar frá má sjá að sótspor íslenskra þorskhnakka sem fluttir eru með flugi til Bretlands er sambærilegt á við norskan þorsk og lax sem fluttur hefur verið með sendibílum til mið-Evrópu. Séu hnakkarnir hins vegar sendir með skipi kemur íslenski fiskurinn töluvert betur út en sá norski. Séu þorskhnakkarnir bornir saman við aðra próteingjafa úr dýraríkinu má sjá að íslenskur þorskur hefur mjög takmarkað sótspor.

Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa verið gefnar út í skýrsluformi, auk þess sem gefin hefur verið út bæklingur með helstu niðurstöðum. Nálgast má skýrsluna og bæklinginn á heimasíðum Matís og AVS, en verkefnið var styrkt af AVS.

Nánari upplýsingar Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

IS