Fréttir

Hvert stefnir fiskneysla Íslendinga? Fróðleg grein í Ægi

Eins og sagt var frá hér á vefnum í janúar, var nýlega kynnt verkefni um mögulegar leiðir til að auka á ný fiskneyslu, sérstaklega ungs fólks, en rannsóknir sýna að hún á að mörgu leyti á brattann að sækja hjá þeim aldurshóp. Á dögunum birtist í tímaritinu Ægi fróðleg samantek á verkefninu og er hægt að lesa hana hér á pdf-formi.

Eins og lesendur þessarar vefsíðu hafa ugglaust tekið eftir, þá hefur fjölbreytt umræða um kosti fiskneyslu verið áberandi á síðustu vikum. Þannig var nýlega sagt frá umræðu The Economist um ágæti fiskneyslu, sérstaklega m.t.t. omega-3 fitusýra, einnig var birt skýrsla sem sýnir að sáralítið er af óæskilegum efnum í fiski af Íslandsmiðum. Þá var í janúar kynnt verkefni hér á Rf sem miðar að því auka á ný fiskneyslu hér á landi og er verkefninu gerð góð skil í greininni í Ægi. Höfundar greinarinnar, sem nefnist „Hvert stefnir fiskneysla Íslendinga?“ eru þær Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Rf og Kolbrún Sveinsdóttir, matvælafræðingur.

En þrátt fyrir þessar jákvæðu fréttir sýna kannanir að fiskur á sífellt minna upp á pallborðið hjá fólki, sérstaklega yngri kynslóðinni.   Þetta er visst áhyggjuefni, enda um mikilvæga neytendur í framtíðinni að ræða.  Þá er minnkandi fiskneysla ekki síður áhyggjuefni út frá heilsufarssjónarmiði, enda sjávarfang og lýsi t.d. mikilvæg uppspretta D-vítamíns, sem er nauðsynlegt fyrir kalkbúskap líkamans og getur unnið gegn beinþynningu á efri árum. 

Það er því ekki að ósekju sem ákveðið var að setja af stað sérstakt átaksverkefni, sem hefur það að markmiði að glæða áhuga yngri kynslóða hér á landi á fiski. 

Lesa greinina í Ægi

IS