Bygg hefur verið ræktað á Íslandi með góðum árangri. Ræktun á höfrum er nýleg viðbót og lofar hún mjög góðu. Í verslunum má finna íslenskt bygg á ýmsu formi en einnig haframjöl. Bygg og hafrar hafa mikla sérstöðu meðal korntegunda, þessar korntegundir eru ríkar af trefjaefnum eins og beta-glúkönum sem eru í mjög takmörkuðum mæli í hveiti. Korn er mjög mikilvægt fyrir fæðuöryggi á Íslandi og er þá bæði átt við korn sem fóður og til matvælaframleiðslu. Manneldiskorn er langveikasti hlekkurinn í fæðuöryggi á Íslandi. Nú standa vonir til aukinnar kornræktar á Íslandi og því er full ástæða til að nota meira af íslenska korninu í matvæli.
Nú í júní 2023 voru gefnar út nýjar norrænar næringarráðleggingar, sem finna má hér og hér. Þær eru mikið framfaraskref og byggðar á traustum vísindalegum grundvelli. Umfjöllunin um korn vekur sérstaka athygli þar sem neysla á heilkorni er tengd við heilsufarslegan ávinning. Mælt er með að neyta að minnsta kosti 90 gramma af heilkorni á dag en ekki sakar að neyta meira magns. Heilkornavörur með minnst 50% heilkorni teljast með í ráðleggingunum. Umtalsverð neysla á heilkorni minnkar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, ristilkrabbameini, gerð 2 sykursýni og ótímabærum dauðdaga.
Heilkorn inniheldur hýðið og þau bætiefni sem því fylgja. Hvítt hveiti og hvít hrísgrjón geta augljóslega ekki fallið undir heilkorn. Hvítt hveiti getur þó gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fólk sem þarf mikla orku.
Fólk sem hefur glútenóþol þarf eftir sem áður að forðast heilkorn með glúteni. Þess má þó geta að til eru hafrar sem hafa verið staðfestir glútenlausir.
Matvælaiðnaðurinn hefur ekki hagnýtt heilkorn eins og vert væri. Hægt væri að nýta íslenskt bygg og hafra í mun meiri mæli. Í verkefnum Matís hefur verið sýnt fram á notagildi íslenska kornsins:
Hér eru tækifæri fyrir matvælaiðnaðinn til að skapa sér sérstöðu og ná betur til neytenda.
Greinarhöfundur: Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is