Laugardaginn 19. apríl var haldið á Ísafirði málþing um matartengda ferðaþjónustu. Markmiðið með málþinginu var að ræða leiðir til að þróa matarferðamennsku á Vestfjörðum sem skilar sér í auknum fjölda ferðamanna til svæðisins og notkun á staðbundnu hráefni.
Einnig var markmið málþingsins að ná saman áhugafólki um þetta málefni úr fjórðungnum og fá það til að hefja samvinnu. Jón Gunnar Schram hjá Matís á Ísafirði átti frumkvæðið að málþinginu en auk hans vann Ásgerður Þorleifsdóttir hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða að undirbúningi, ásamt Jónu Símoníu Bjarnadóttur, Heimi Hanssyni og Finnboga Bernódussyni í undirbúningsnefndinni.
Þátttakendur komu víða að af Vestfjörðum. Flutt voru fróðleg erindi um reynsluna frá öðrum landshlutum og um stöðuna á Vestfjörum. Starfsmenn Matís fluttu þrjú erindi: Þóra Valsdóttir fjallaði um þróun vara úr staðbundnu hráefni og matarhönnun og Ólafur Reykdal gerði grein fyrir efnainnihaldi og sérstöðu vestfirsks matar.
Þingið var haldið í Edinborgarhúsinu, sem er stærsta timburhús landsins, en það hefur verið gert upp á skemmtilegan hátt.
Á myndinni er Soffía Gústafsdóttir sem hélt erindi um Vestfirskar sælkeraslóðir.