Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) er í umsjón Matís og á matis.is er hægt að finna upplýsingar um þau næringarefni sem hafa verið skráð í gagnagrunninn. Þar er einnig að finna skýringar og upplýsingar um gögnin og uppruna þeirra. Í ÍSGEM hefur verið safnað gögnum um helstu næringarefni í mörgum fæðutegundum sem eru á markaði á Íslandi. Þetta er eini gagnagrunnur sinnar tegundar á Íslandi enda er hann opinber gagnagrunnur fyrir Ísland.
Hlutverk gagnagrunna sem geyma upplýsingar um næringarefnin í matnum okkar er að veita notendum traustar upplýsingar um þessi efni. Það er áríðandi að þessar upplýsingar séu réttar því margir einstaklingar byggja á þeim vegna sérþarfa eða til að halda góðri heilsu. Ráðgjafar verða að veita skjólstæðingum og sjúklingum réttar upplýsingar og starfsfólk fyrirtækja verður að veita réttar upplýsingar um næringargildi framleiðsluvara sinna.
Við skráningu á gögnum um næringarefni í ÍSGEM er notað sérstakt gæðakerfi til að tryggja að allar upplýsingar séu réttar. Tryggja þarf að vinnubrögð hafi verið vönduð allt frá sýnatöku og efnamælingum til framsetningar á niðurstöðum. Upplýsingar um gögnin eru skráð nákvæmlega þannig að þau eru rekjanleg til frumheimildar.
Í dag gera internetið, samfélagsmiðlar og gervigreind okkur mögulegt að sækja alls konar upplýsingar með einföldum hætti hvar og hvenær sem er en oft er ekki ljóst hver frumheimildin er. Upplýsingarnar geta verið mjög vandaðar en stundum eru þær takmarkaðar, villandi eða beinlínis rangar. Oft eru upplýsingar jafnvel settar fram til þess eins að þjóna viðskiptalegum markmiðum eða fylgja tískustraumum. Þegar málið snýst um næringarefnin og heilsu er áríðandi að hafa aðgang að sannreyndum, gæðametnum upplýsingum eins og finna má í opnum aðgangi ÍSGEM.
Notendur ÍSGEM hafa verið margir í gegnu tíðina en gagnagrunnurinn varð til árið 1987 hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins þegar mælingar á næringarefnum og öðrum efnum í íslenskum matvælum voru gerðar svo til í fyrsta skipti.
Almenningur hefur sótt þangað upplýsingar, ekki síst þau sem þurfa að huga að mataræðinu heilsu sinnar vegna. Einnig má nefna rannsóknafólk í næringarfræði og næringarráðgjafa. Allar íslenskar landskannanir á mataræði hafa nýtt ÍSGEM. Fólk í matvælafyrirtækjum hefur auk þess nýtt þennan gagnagrunn við vöruþróun og merkingar á næringargildi.
ÍSGEM gagnagrunnurinn er einn af innviðum Íslands. Eðli málsins samkvæmt þarf að uppfæra ÍSGEM reglulega því samsetning matvæla breytist til dæmis vegna umhverfisáhrifa, breyttrar fóðrunar, breyttra uppskrifta og svo þarf að bæta við nýjum niðurstöðum þegar ný matvæli koma á markað.
Sérstaklega er mikilvægt að viðhalda uppfærðum upplýsingum í gagnagrunninum svo að fólkið í landinu geti áfram með einföldum hætti nálgast traustar og réttar upplýsingar sem eru yfirfarnar af vísindafólki.
Rannsóknasjóðir styrkja almennt ekki viðhald innviða en hjá Matís er fyrst og fremst unnið fyrir styrki. Hjá Matís er þó einnig unnið fyrir þjónustusamning við Matvælaráðuneytið en þess er vænst að vinna við ÍSGEM gagnagrunninn verði hluti af þjónustusamningnum frá árinu 2024.
Í gegnum tíðina hefur gagnagrunnurinn verið nýttur í fjölbreytt verkefni í samstarfi við ýmsa aðila eins og fram hefur komið. Matvælasjóður styrkti á árunum 2022-2023 verkefnið Næringargögn – Lykill að lýðheilsu og nýsköpun. Í þessu verkefni var gæðakerfi fyrir ÍSGEM þróað, notendahandbók tekin saman og hluti gagna uppfærður. Nýlegt verkefni sem unnið var að hjá Matís í samstarfi við Samtök smáframleiðenda matvæla/ Beint frá býli með styrk frá Matvælasjóði fól í sér að þróað var vefforrit sem reiknar út næringargildi matvæla út frá uppskrift. Um er að ræða vefforrit sem sækir upplýsingar í ÍSGEM en það auðveldar útreikninga á næringargildi til muna. Vefforritið má nálgast hér.
Vonast er til þess að á næstu árum verði hægt að nýta ÍSGEM til að miðla upplýsingum um kolefnisspor matvæla. Verkefnið Kolefnisspor Íslenskra Matvæla (KÍM) sem unnið er í samstarfi Matís, Næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Eflu verkfræðistofu var veittur styrkur úr Matvælasjóði nýlega. Markmið verkefnisins er að veita neytendum, stjórnvöldum og hagsmunaaðilum á Íslandi áreiðanlegar, gagnsæjar og samanburðarhæfar upplýsingar um umhverfisáhrif íslenskra matvæla. Eitt þriggja megin markmiða verkefnisins er uppfærsla á ÍSGEM gagnagrunninum sem mun þá einnig birta kolefnisspor íslenskra matvæla samhliða næringarupplýsingum þegar verkefninu lýkur.
Tækifærin fyrir ÍSGEM gagnagrunninn eru mörg og spennandi þar sem gríðarlegt virði er fólgið í því að hafa traustar upplýsingar um næringarinnihald matvæla aðgengilegar fólki og fyrirtækjum. Framtíðarsýnin er sú að ÍSGEM geti orðið heildstæð upplýsingaveita um matvæli. Mikilvægt er að tryggja stuðning til viðhalds og viðbóta og áhugavert verður að fylgjast með framvindu þessara mála á næstu misserum.