Næringargögn – Lykill að lýðheilsu og nýsköpun 

Heiti verkefnis: Næringargögn

Samstarfsaðilar: Evrópsku samtökin EuroFIR (European Food Information Resource), Mjólkursamsalan og Samtök smáframleiðenda matvæla.

Rannsóknasjóður: Matvælasjóður

Upphafsár: 2022

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Verkefnið í heild snýst um íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) sem Matís rekur. Gagnagrunnurinn hefur um langt skeið veitt upplýsingar um næringarefnin í matnum og hafa notendur verið almenningur, sérfræðingar og starfsmenn fyrirtækja. Gögnin hafa þó ekki verið uppfærð sem skyldi seinustu ár þar sem fjármagn hefur ekki verið fáanlegt til vinnunnar.

Í verkefninu verða fáanleg gömul og ný gögn yfirfarin og mat lagt á þau með alþjóðlegum gæðamatsaðferðum. Í samstarfi við evrópsku EuroFIR samtökin verða gæðakröfur fyrir gögn í ÍSGEM skilgreind og ný gæðahandbók tekin saman. Endurbætur verða gerðar á vefviðmóti gagna á vef Matís svo mögulegt verði að sjá grafíska framsetningu. Gögn í gagnagrunninum verða athuguð með tilliti til þarfar fyrir uppfærslur. Þessi athugun verður studd með takmörkuðum efnagreiningum.

Miðlun til notenda er lykilatriði í verkefninu. Miðlunarteymi Matís mun reglulega koma upplýsingum á framfæri. Vefbók verður hnitmiðuð upplýsingaveita til að efla skilning notenda á viðfangsefninu. Að auki verður bæklingur um ÍSGEM gefinn út.

Verkefnið mun skila (1) endurbættu gæðakerfi fyrir ÍSGEM gagnagrunninn í samræmi við bestu alþjóðlega þekkingu, (2) nýrri vefhandbók til að auðvelda notkun gagnagrunnsins, (3) endurbættri framsetningu á ÍSGEM gögnum á vefsíðu Matís og (4) uppfærðum gögnum í ÍSGEM að svo miklu leyti sem umfang verkefnisins leyfir.