Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða

Heiti verkefnis: Lambakjöt – Nýting og efnainnihald

Samstarfsaðilar: Icelandic lamb ehf er eignandi verkefnisins og kaupir vinnu af Matís. Náið samstarf er við afurðastöðvar svo sem Kjarnafæði-Norðlenska / SAH Afurðir á Blönduósi og Sláturfélag Suðurlands á Selfossi sem létu í té lambakjöt og aðstöðu. Sýni af innmat og líffærum lamba voru fengin hjá Sláturfélag Suðurlands á Selfossi, Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga og Kjarnafæði-Norðlenska / SAH afurða á Húsavík. Einnig fékkst mikilvægur stuðningur frá yfirkjötmati Matvælastofnunar.

Rannsóknasjóður: Matvælasjóður

Upphafsár: 2022

Þjónustuflokkur:

kjot

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Verkefnið snýr að úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts ásamt greiningum á efnainnihaldi kjötsins og aukaafurða sem eru vaxandi verðmæti. Verkefninu er ætlað að leggja fram gögn sem koma í stað úreltra gagna og miðla þeim til hagaðila og neytenda. Skortur á nýjum og uppfærðum gögnum um nýtingu og næringargildi var farinn að há markaðsstarfi.

Unnin hefur verið þarfagreining með hagaðilum og uppfærð tafla yfir þá kjötmats- og þyngdarflokka sem töldust mikilvægastir. Lambakjötsskrokka var aflað í sláturtíð 2022 hjá í afurðastöðvum á Blönduósi og Selfossi. Sýni af 14 tegundum innmatar og líffæra voru fengin frá afurðastöðvum á Selfossi, Sauðárkróki og Húsavík. Skrokkum var skipt eftir miðlínu í hægri og vinstri hluta. Hægri hlutinn var unninn í læri, hrygg, slög og frampart og eftir frystingu voru þessir hlutar fluttir í frystigeymslu á Matís. Þar fór fram nákvæmnisúrbeining til að ákvarða hlutföll kjöts, fitu og beina. Vinstri hluti skrokka verður nýttur til mælinga á tilteknum lambakjötsafurðum samkvæmt óskum iðnaðarins. Mælingar á næringarefnum fara fram á kjöti, innmat og líffærum. Áhersla er á mælingar á próteini og fitu sem ákvarða orkugildið en einnig fara fram mælingar á vatni, heildarmagni steinefna og völdum vítamínum og steinefnum.

Gögnin nýtast til aukins hagræðis, áætlanagerðar, kostnaðar- og framlegðarútreikninga við úrvinnslu og mat á afurðaverði og til endurmats á merkingum um næringarinnihald. Niðurstöður verða teknar saman í skýrslu á íslensku og ensku. Niðurstöðurnar verða opnar og öllum aðgengilegar í íslensku kjötbókinni og gagnagrunni Matís fyrir næringarefni. Þær verða kynntar fyrir hagaðilum svo sem afurðastöðvum, kjötiðnaði, bændum og nýsköpunarfyrirtækjum.