Í fiskiðnaði hefur íshúðun frosinna fiskafurða verið stunduð í áratugi með það að markmiði að tryggja gæði afurðanna og lengja geymsluþol. Íshúðun á því ekkert skilt við vatn sem dælt er inn í matvæli í öðrum tilgangi. Íshúð er hins vegar ódýr og góð lausn og í raun sú besta sem til er til að vernda lausfrystar fiskafurðir.
Fryst matvæli geymast misvel í frysti, matvælin bæði þorna og þrána þó frosin séu. Í fiskiðnaði hefur íshúðun frosinna fiskafurða verið stunduð með það að markmiði að tryggja gæði afurðanna og lengja geymsluþol. Íshúð er í raun umbúðir sem falla þétt að vörunni og vernda hana gegn þornun og þránum. Íshúð er því ódýr og góð lausn og í raun sú besta sem til er til að vernda lausfrystar fiskafurðir.
Frostbruni rýrir gæði vörunnar
Flestir kaupendur frosinna sjávarafurða fara fram á að lausfrystar afurðir séu íshúðaðar, tekin eru fram ákveðin viðmið og algengt er að miða við 6-8% íshúð. Það getur þó verið nokkuð breytilegt eftir vörum. En í öllum tilvikum skal taka tillit til þessarar íshúðar við vigtun eins og um umbúðir væri að ræða, þannig að neytandinn fái nettó þyngd vörunnar. Hann á ekki að borga sama verð fyrir íshúðina og fiskinn, það eru vörusvik. Það er hins vegar gæðamerki að fiskurinn sé íshúðaður.
Íshúð verndar fiskinn hins vegar ekki að eilífu. Hún gufar upp mishratt að vísu og er það háð geymsluaðstæðum. Íshúð er til dæmis fljót að fara í frystigeymslu þar sem hitastig sveiflast mikið. Ef fiskurinn er í plastpokum þá þéttist vatnið aftur og myndar hrím. Það fer betur að íshúðun myndi hrímið heldur en vatn út fiskinum sjálfum því það veldur þornum sem margir kalla frostbruna og rýrir gæði vörunnar.
Mikilvægt að fylgjast með hitastigi
Íshúð sem er 6-8% á fiskinum þegar hann fer frá framleiðenda getur verið orðin að engu eftir fáeinar vikur í frystigeymslu. Til þess að lengja geymslu matvæla í heimafrysti er mikilvægt að fylgjast vel með hitastigi og tryggja það að hitastigið sveiflist ekki mikið, hafa matvælin í vel lokuðum plastpokum og jafnvel íshúða matvælin að nýju með því að bregða þeim í ískalt vatn og setja þau aftur í plastpoka og inn í frysti. Ýmsar upplýsingar um frystingu og vinnslu sjávarfangs er að finna á heimasíðu Matís ohf og á fræðsluvefnum “Á vísan að róa”