Fréttir

Íslendingar séu virkir þátttakendur í sjálfbærni

Krafa um sjálfbærni í sjávarútvegi eykst sífellt og því mikilvægt að íslensk fyrirtæki taki virkan þátt í þróun á því sviði. Á alþjóðlegum vinnufundi Matís, sem fram fór á Sauðárkróki, kom fram að fjölmörg sóknarfæri eru til staðar í sjálfbærri þróun í sjávarútvegi en nauðsynlegt er að Íslendingar haldi vöku sinni svo þeir eigi þess kost að vera framarlega í umræðu um slík mál í alþjóðlegu tilliti.

Sjálfbær þróun (e. sustainable development) er sú þróun sem gerir fólki kleift að mæta þörfum sínum án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til hins sama. Á alþjóðlegum vinnufundi Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og færeyskra og íslenskra fulltrúa sem tengjast sjávarútvegi kom fram breið samstaða um mikilvægi þess að halda sjálfbærni á lofti með tilliti til veiða, vinnslu og flutninga á erlenda markaði.

Gísli Svan Einarsson, framkvæmdastjóri Versins-Vísindagarða í Skagafirði, Sveinn Margeirsson, Matís, og Ólavur Gregersen, verkefnastjóri Sustainable Food Information.

Vinnufundurinn er hluti af vestnorrænu verkefni, sem Matís stýrir, og nefnist “Sustainable Food Information”. Verkefnið hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegsfyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni. Sérstaklega er horft til rekjanleika sjávarafurða, frá miðum til neytanda, sem er undirstaða þess að hægt sé að sýna fram á sjálfbærar veiðar.

Humar

“Krafa um sjálfbærni í sjávarútvegi og rekjanleika er sífellt að aukast, ekki síst erlendis,” segir Sveinn Margeirsson, deildarstjóri hjá Matís. “Vitund um umhverfismál hefur aukist og kröfur markaðarins eru í þá átt að hægt sé að sýna fram á að sjávarafurðir séu framleiddar án þess að gengið sé um of á auðlindir og að leitað sé leiða til að lágmarka mengun,” segir Sveinn.

“Íslendingar standa að mörgu leyti vel að vígi og hafa forskot á margar aðrar þjóðir þegar kemur að rekjanleika. Næsta skref er að nýta rekjanleikann til þess að sýna fram á sjálfbærni í sjávarútvegi. Þess vegna er mikilvægt fyrir Íslendinga að halda vöku sinni og tryggja að þeir verði áfram framarlega í umræðu um slík mál í framtíðinni.”

Efri mynd: Gísli Svan Einarsson, framkvæmdastjóri Versins-Vísindagarða í Skagafirði, Sveinn Margeirsson, Matís, og Ólavur Gregersen, verkefnastjóri Sustainable Food Information.

IS