Fréttir

Íslensk sæbjúgnasúpa slær í gegn í Köln

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Berglind Ósk Alfreðsdóttir, Helga Franklínsdóttir nemendur við Háskóla Íslands og Sigríður Hulda Sigurðardóttir nemandi við Listaháskóla Íslands hlutu sérstök verðlaun dómnefndar í Ecotrophelia, sem er keppni í vistvænni nýsköpun matvæla.

25 dómurum frá 18 þátttökulöndum og 7 frá stórfyrirtækjum og Evrópusambandinu fannst mikið til sæbjúgnasúpunnar koma og veittu íslensku þátttakendunum sérstök verðlaun fyrir að vera með áhugaverðustu nýju hugmyndina. Einn dómari var frá Íslandi en það var Ragnheiður Héðinsdóttir frá Samtökum iðnaðarins.

Óhætt er að segja að árangur Íslendinganna sé frábær þegar haft er í huga að um 120 lið tóku þátt í landskeppnum og 18 lið komust áfram í sjálfa aðal keppnina sem var haldin í Köln í Þýskalandi.

Þess má geta að í kínverskri matargerð séu sæbjúgu mest notuð í súpur en það geti tekið nokkra daga að elda hana þar sem undirbúningurinn er flókinn og tímafrekur. Því var hugmyndin að gera vöru sem myndi henta kínverskum markaði en yrði aðgengileg fyrir neytandann, fljótleg í eldun og myndi henta vel fyrir langa flutninga. Niðurstaðan var því bollasúpa með frostþurrkuðum sæbjúgum sem einungis þyrfti að hella soðnu vatni yfir og þá yrði hún tilbúin til neyslu en súpan ber nafnið Hai Shen.

Samstarf Ecotrofood verkefnis Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Matís og Háskóla Íslands gerir það að verkum að íslenskir nemendur taka þátt í Ecotrophelia nú annað árið í röð. Þá má nefna að Samtök iðnaðarins, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð gáfu verðlaun í íslensku landskeppninni og að Vöruþróunarsetur sjávarafurða á Matís hefur stutt verkefnið fyrir keppnina í Köln.

Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís og dósent við Háskóla Íslands, hefur leiðbeint nemendunum og verið þeim til stuðnings ásamt mörgum starfmönnum Matís.  Auk þess hafa aðstandendur nemenda stutt dyggilega við bakið á þeim.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson hjá Matís, Helga Franklínsdóttir (690-5255) og Berglind Ósk Alfreðsdóttir (865-1125).

IS