Sif Matthíasdóttir, Hrísakoti, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands og Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háafelli í Hvítársíðu, kynntu geitabúskap og geitaafurðir á Vínlandsleið. Starfsmenn fengu stutta kynningu um geitur og var boðið að smakka geitaafurðir, en þær Sif og Jóhanna voru mættar til að funda við Matís um hugsanlegt samstarf.
Geitur hafa fylgt Íslendingum frá landnámi eins og sést á örnefnum víða um land. Um miðja 20. öld lá við að stofninn þurrkaðist út en síðan hefur verið reynt að viðhalda honum. Árið 2014 taldi íslenski geitastofninn um 987 dýr (skv. www.bondi.is).
Geitur búa yfir verðmætum afurðum sem hægt er að vinna svo sem mjólk, þel, kjöt og skinn. Þá hefur verið hægt að fá krem og sápur sem unnið er úr geitaafurðum og jurtum á Háafelli.
Geitur eru ekki rúnar líkt og kindur, og kemba þarf ullina af þeim með sérstökum kambi. Jóhanna bar hálsklút sem hún benti á að væri unninn úr mjúkri og hlýrri kasmírull af íslenskri geit sem er þekkt fyrir fjölbreytilegt litamynstur. Þar sem íslenska geitin hefur verið einangruð hérlendis í um 1100 ár, er ullin í hávegum höfð því hún er talin líkjast einna mest ull af svonefndum kasmírgeitum.
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á
Háafelli í Hvítársíðu og Sif Matthíasdóttir, Hrísakoti, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.