Fréttir

Íslenskir munkar og nunnur frjálsleg í matarvali

Nú í sumar hefur Matís í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands rannsakað hvað var hugsanlega borðað í íslenskum klaustrum. Rannsóknin snýst um að skoða matarleifar í leirkersbrotum. Þá er einnig í gangi annað samstarfsverkefni þar sem sýni úr fornleifauppgrefti eru notuð til þess að athuga mataræði landnámsmanna. 

Mataræði innan íslenskra klaustra, sem voru í kringum 11 talsins og starfrækt allt frá 1133 til siðaskipta, er rannsóknarefni sem lítið hefur verið rannsakað og því er vitneskja okkar um matarvenjur þar af skornum skammti. Til að átta sig á því hvað var borðað í íslenskum klaustrum hafa leirbrot úr ílátum frá Skriðuklaustri og Kirkjubæjarklaustri verið til skoðunar. Dr. Björn Viðar Aðalbjörnsson sérfræðingur hjá Matís leiðir verkefnið fyrir hönd Matís en Ármann Guðmundsson fornleifafræðingur fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands. 

Björn segir rannsóknina einungis skoða leirbrot úr matarílátum  sem fengin hafa verið á Þjóðminjasafninu og hafi fundist í fornleifauppgrefti, ekki séu aðrar heimildir nýttar. Hér sé um tæknilega rannsókn að ræða. Verkefni er unnið af Mariu Katrínu Naumovskaya nemanda við Háskóla Íslands, sem hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóð Námsmanna fyrir verkefninu.

„Lítil leirkersbrot eru mulin niður og fitusýrur greindar í gasgreini og massagreini. Hlutföll fitusýra geta gefið upp hvaða matur var eldaður og borið fram í áhöldunum og benda fyrstu niðurstöður til þess að mataræði munka og nunna hérlendis hafi verið fjölbreytt og mögulega fjölbreyttara en reglur um mataræði munka og nunna sögðu til um á þeim tíma,“ segir Björn. 

Uppgröfturinn í Vogi

„Minna er vitað um matarræði landnámsmann. Verkefnið hefur stækkað og hafnar eru rannsóknir á sýnum úr fornleifarannsókninni í Vogi í Höfnum, sem Fornleifafræðistofan leiðir undir stjórn Dr. Bjarna F. Einarssonar. Jarðvegssýni hafa verið tekin og fituefni greind í þeim líkt og í fyrra verkefninu.  Niðurstöður hafa gefið betri sýn á matarræði landnámsmanna og einnig gefið vísbendingar um hlutverk mannvirkis sem var áður ráðgáta.“

IS