Fréttir

Ísreiknir Matís: Áætlar raunverulega ísþörf aflans

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Sviðsstjóri rannsókna

jonas@matis.is

Eins og alþjóð veit þá eru strandveiðar nú í fullum gangi, en alls hafa um 800 bátar fengið strandveiðileyfi þetta sumarið.

Eins og við aðrar fiskveiðar er rétt aflameðferð mikilvæg til að tryggja gæði og geymsluþol, en leiðbeiningar má nálgast hér. Góð kæling á aflanum er mikilvægasti þátturinn í að tryggja gæði og geymsluþol afurðanna, og því hefur Matís útbúið ísreikni sem aðgengilegur er á heimasíðu fyrirtækisins

Ísreiknirinn gefur ráðleggingar um það magn af ís sem þarf til að kæla afla niður í 0°C miðað við sjávarhita og svo ísþörf til að viðhalda 0°C miðað við umhverfishitastig (t.d. í kæligeymslu) og dagafjölda. Gögnin að baki ísreikninum byggja á varmafræðilíkönum og kælitilraunum.

Í upphafi júní mánaðar tók gildi ný reglugerð sem kveður á um að allri vigtun strandveiðiafla ljúki á hafnarvog þar sem íshlutfall er fastsett við 3%. Hætt er við því að reglugerðin virki sem hvati til þess að takmarka ísnotkun og því getur verð gott að nýta ísreikninn til að áætla hver raunveruleg ísþörf er.

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar má fylgjast með sjávarhita víðsvegar umhverfis landið og má þar t.d. sjá að meðalhitastig síðustu daga á Vestfjörðum hefur verið um 8°C. Samkvæmt ísreikninum ætti því að þurfa um 9 kg af ís til að kæla hver 100 kg af afla niður í 0°C.

Aflasamsetning, hvað varðar tegund og stærð fiska, hefur áhrif á hversu langan tíma það tekur að kæla aflann niður í 0°C, auk þess sem kælimiðillinn skiptir miklu máli, eins og sjá má á þessum einblöðungi.

IS