Fréttir

Kanna hagkvæmni vinnslu á lýsi um borð

Nýverið lauk vinnu við verkefnið „Sjóvinnsla á þorskalýsi”. Verkefnið var styrkt af AVS og unnið af Matís undir handleiðslu Marvins Inga Einarssyni. Markmið verkefnisins var að kanna hagvæmni þess að vinna lifur í hágæða þorskalýsi beint eftir vinnslu um borð og bera saman ávinning á slíkri vinnslu við löndun á heilli lifur.

Niðurstöður verkefnisins gáfu til kynna að ekki sé arðbært að vinna einungis þorsklifur um borð í togurum en meiri hagnaður er af því að landa henni ferskri. Hins vegar er hægt að auka hagnað verulega með því að vinna saman alla þorsk-, ufsa- og ýsulifur og hagnaður getur orðið enn meiri sé allt slóg unnið, þ.m.t. lifrin.

Meiri hagnaður reyndist vera af vinnslu lýsis um borð í frystitogurum samanborið við ísfisktogara sé horft til þess að ísfisktogarar munu verða af tekjum byrji þeir að framleiða lýsi um borð. Það eru tekjur af lifur sem annars væri landað. Þetta á ekki við um frystitogara en þeir nýta almennt ekki lifur.

Marvin segir niðurstöðurnar sýna, að framleiðsla á slóglýsi um borð í frystitogurum geti verið hagkvæmur kostur, sérstaklega þegar horft er til eldri togara sem ekki hafa pláss fyrir mjölvinnslu. Umræddur búnaður tekur um 9 fermetra og gera þarf ráð fyrir geymslutönkum undir lýsi upp á u.þ.b. 15 rúmmetra.

IS