Fréttir

Krakka kokka á jólamarkaði Matarmarkaðs Íslands

Jólamarkaður Matarmarkaðar Íslands verður í Hörpu um þessa helgi, laugardag 14. des og sunnudag 15. des. Matís, Slow Food Reykjavík, Matarauður Íslands og Matarmarkaður Íslands standa saman að skemmtilegum barnaleik á jólamarkaðinum, en börn fá að skreyta og eiga fjölnota taupoka með merki Krakkar kokka, sem er fræðsluverkefni á vegum Matís, styrkt af Matarauði Íslands, hannað fyrir grunnskóla og leikskóla og gengur út á það að börn læri í gegnum fræðslu, leik og matreiðslu um matarauðlindir og frumframleiðslu nærumhverfis síns, sjálfbærni og ábyrga neyslu, í takt við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Öll börn fá poka á meðan birgðir endast, en pokinn inniheldur jafnframt fræðandi ratleik um íslensk matvæli sem hafa fengið vottun Slow Food samtakanna í Íslensku bragðörkina sem telur einungis íslensk matvæli sem hafa sérstöðu hér á landi sökum uppruna og langra framleiðsluhefða. Börn sem taka þátt í ratleiknum skila inn þátttökublaði í lokin og að markaðinum loknum verður eitt barn dregið út og hlýtur það fjölskyldukort í Húsdýragarðinn í vinning, en kortið veitir frían aðgang fyrir tvo fullorðna og allt að fjögur börn í garðinn og öll tæki í heilt ár.

Allir eru velkomnir á Jólamarkað Matarmarkaðar Íslands og aðgangur er ókeypis, en fjöldi bænda og annarra frumframleiðenda og framleiðenda kynna og selja vöru sína á markaðinum. 

Nánari upplýsingar og verkefnisbækling um verkefnið Krakkar kokka má finna á www.matis.is/krakkar-kokka/.

IS