Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands verður með kynningu á nýju alþjóðlegu meistarnámi í matvælafræði fimmtudaginn 12. apríl nk. kl. 10-12 í stofu HT-300 á Háskólatorgi.
Háskóli Íslands í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann, Háskólann á Hólum og Matís, hefur sett á laggirnar mastersnám í matvælavísindum þar sem áherslurnar eru frábrugðnar því sem áður hefur þekkst.
Kynning á náminu verður núna á fimmtudaginn 12. apríl á Háskólatorgi – sjá hér.
Nýtt meistaranám í matvælafræði
Meistaranám í matvælafræði í samvinnu Háskóla Íslands, annarra ríkisháskóla og Matís, með aðkomu fyrirtækja í matvæla- og líftækniiðnaði.
Boðið verður upp á þrjár námsleiðir í náminu og ljúka þá nemendur meistaragráðu í matvælafræði með áherslu á framleiðslustjórnun, gæðastjórnun eða líftækni.
- Framleiðslustjórnunarlína: áhersla á vinnslu, vöruþróun og virðisaukningu
- Gæðastjórnunarlína: áhersla á örverumælingar og rannsóknir og innleiðingu og útfærslu gæðaeftirlits
- Líftæknilína: áhersla á lífefnavinnslu, rannsóknir og nýsköpun
Ætlunin er að tengja námið atvinnulífi með beinum hætti, bæði með gestafyrirlesurum úr atvinnulífi og með hagnýtum nemendaverkefnum sem unnin verða í samstarfi við öflug matvælafyrirtæki. Jafnframt því að tengja námið betur atvinnulífi
en áður hefur þekkst á þessu sviði verður alþjóðlegt samstarf eflt, auk þess sem bætt hefur verið inn í námið stjórnunar- og rekstraráherslum.
Um er að ræða hagnýtt nám sem hentar þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindagreinum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði og hafa áhuga að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.
Nánari upplýsingar má finna hér og einnig með því að hafa samband við Guðjón Þorkelsson sviðsstjóra hjá Matís og dósent við Hí og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.
Heimasíða námsins: www.framtidarnam.is.