Nokkur hundruð lifandi leturhumrar frá Íslandi, sem fluttir voru á sjávarútvegssýninguna European Seafood Exposition í Brussel í Belgíu, vöktu mikla athygli sýningargesta.
Humrarnir, sem voru veiddir á Hornarfjarðardjúpi, voru fluttir fyrst á humarhótelið, sem er rekið á vegum Matís (Matvælarannsókna Íslands) og Frumkvöðlaseturs Austurlands. Þar voru þeir kældir áður en þeir voru fluttir út með Icelandair Cargo til Brussel. Humrarnir voru svo fluttir á bás fyrirtækisins OOJEE. Humranir þykja vænir að stærð en þeir eru um 100 gr. að þyngd að meðaltali.
Veiðar og flutningur á lifandi humri frá Hornafirði er hluti af tilraunaverkefni Matís, Frumkvöðlasetus Austurlands og Skinney Þinganess. Það er styrkt af AVS rannsóknasjóðnum.
European Seafood Exposition sýningin í Brussel hófst sl. þriðjudag og lýkur í dag, 26. apríl. Í raun er um að ræða tvær sýningar á sama stað: European Seafood Exposition, þar sem sýndar eru sjávarafurðir og Seafood Processing Europe með vélum, tækjum, þjónustu og öðrum búnaði fyrir sjávarútveg.
Á myndinni eru f.v.: Guðmundur Gunnarsson, Matís, Ari Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Austurlands, og Karl Jóhannesson, OOJEE.