Fréttir

Litun á laxholdi með náttúrulegum litarefnum

Lokið er AVS verkefninu „Litun á Laxholdi með náttúrulegum Litarefnum“ og hefur lokaskýrsla verkefnisins nú verið gefin út. Í verkefninu voru könnuð áhrif mismunandi litarefna og styrks þeirra í fóðri fyrir Atlantshafslax á holdlit. Helstu niðurstöður verkefnisins voru að ómarktækur munur reyndist á holdlit milli þeirra litunaraðferða sem prófaðar voru. Öll litarefnin gáfu ásættanlegan holdlit á flökum. 

Verkefnið var unnið í samstarfi Matís, Háskólans á Hólum, Fóðurverksmiðjunnar LAXÁ og Nofima í Noregi. Litarefnið Panaferd AX, sem er unnið úr bakteríunni Paracoccus carotinifaciens, var blandað í mismiklum styrk í tilraunafóður og áhrifin metin. Til viðmiðunar var notað efnagerða litarefnið Lucantin® Pink, sem í dag er algengast að nota í fóður fyrir eldislax. Upphaflega átti einnig að prófa litarefnið Aquasta® en það hvarf af markaði og því var það eingöngu notað í fyrsta hluta (af þremur) tilraunarinnar. Í seinni hluta tilraunarinnar var því eingöngu samanburður á hold-litun með Panaferd AX og Lucantin Pink, gefið í mismiklu magni við mismunandi stærð á fiskinum.

Í verkefninu voru framkvæmdar fóðurtilraunir þar sem lax var alinn í fiskeldiskerjum í alls 438 daga.

Í upphafi rannsóknarinnar var kannað hversu mikið tapaðist af litarefni við framleiðslu tilraunafóðursins. Athugunin sýndi að við notkun á Panaferd AX varðveittist aðeins 76,9% af íblönduðu astaxanthini en 100+% þegar Lucantin Pink var notað. Því þarf að bæta 30% meira af astaxanthini á formi Panaferd i í fóðrið til þess að tryggja fiskinum samsvarandi magn litarefnis og fengist við notkun á Lucantin Pink.

Vöxtur, fóðurtaka, fóðurnýting og lifun var eðlileg í öllum hópum ítilrauninni. Niðurstöðurnar sýndu lítinn mun á holdlit á milli meðferða, en lítið samhengi var milli efnagreinds styrks litarefna og sýnilegs litar.

Niðurstaða tilraunarinnar var að allar prófaðar litunaraðferðirnar og bæði litarefnin sem rannsökuð voru gáfu svipaðan og ásættanlegan holdlit í laxflökum. Panaferd AX er lífrænn valkostur við litun á eldislaxi, sé þess gætt að blanda í fóðrið nægjanlegu magni til að mæta tapinu sem verður á astaxanthini í framleiðsluferli fóðursins.

Frekari upplýsingar veita Jón Árnason hjá Matís og Ólafur Ingi Sigurgeirsson hjá Hólaskóla.

IS