Matís á Akureyri hefur tekið við mælingum á mengunarefnum í matvælum. Um er að ræða nýtt svið sem mun stórefla starfsemi Matís á Akureyri. Sviðið mun sinna rannsóknum og mælingum á mengunarefnum í matvælum, svo sem magni skordýraeiturs, plöntueiturs og annarra lífrænna mengunarefna sem safnast upp í umhverfinu.
Í tilefni af uppbyggingu Matís á Akureyri og formlegri opnun á aðstöðu fyrir slíkar rannsóknir kynnti Sigrún Björk Jakbosdóttir bæjarstjóri á Akureyri sér starfsemi Matís í bænum í dag. Á hinu nýja sviði fara fram mælingar á magni mengunarefna í innfluttu grænmeti, ávöxtum, fiski, kjöti og öðrum matvælum.
Matís á Akureyri mun því gegna lykilhlutverki í neytendavernd hér á landi. Auk þess er sviðnu ætlað að safna gögnum sem sýna fram á hreinleika íslenskra matvæla. Þessi gögn eru ætluð í gagnagrunn sem mun nýtast framleiðendum og útflytjendum íslenskra matvæla auk kaupendum og neytendum erlendis. Krafa um heilnæmi matvæla hefur stóraukist og því munu rannsóknir Matís á Akureyri styðja við íslenskan matvælaiðnað og tryggja öryggi framleiðslunnar.
Mynd:Ásta Ásmundsdóttir, efnafræðingur hjá Matís, Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, Rannveig Björnsdóttir deildarstjóri Matís á Akureyri, og Sigrún Jakobsdóttir, bæjarstjóri, í húsakynnum Matís á Akureyri.