Fréttir

Mælingar á STEC í kjöti á innanlandsmarkaði m.t.t. matvælaöryggis

Tengiliður

Hrólfur Sigurðsson

Verkefnastjóri

hrolfur@matis.is

Nauðsynlegt er að tryggja að matvæli, óháð uppruna, ógni ekki heilsu neytenda eins og skýrt er sett fram í lögum um matvæli, hvort sem um er að ræða efna- eða örveruáhættur. Skipulögð sýnataka og faggildar mælingar hafa óyggjandi niðurstöður. 

Matvælastofnun birti á heimasíðu sinni skýrslu sem fjallar um skimun á sjúkdómsvaldandi bakteríum í kjöti á markaði 2018. Matís tók þátt í rannsókninni og framkvæmdi mælingar á Shiga-toxín myndandi E.coli (STEC) eins og kemur fram í skýrslunni, ásamt aðstoð við túlkun gagna og framsetningu.

Frá árinu 2015 hefur rannsóknastofa Matís verið tilvísunarrannsókastofa fyrir STEC og hefur unnið að uppbyggingu á sérfræðiþekkingu og mæligetu hérlendis. Í gegnum netverk tilvísunarrannsóknarstofa Evrópu tekur Matís þátt í alþjóðlegu samstarfi við að þróa aðferðir, meta útbreiðslu og efla þekkingu á STEC í matvælum.

Rannsókn Matvælastofnunar sem Matís tók þátt í er fyrst sinnar tegundar hérlendis og er hluti í að skoða algengi STEC í matvælum og dýrum og meta stöðu STEC á íslenskum markaði. Einnig er verkefnið mikilvægur þáttur í að undirbúa rannsóknastofuna í að takast á við faraldra af völdum STEC. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir að þessi eiturmyndandi  E. coli tegund er til staðar í kjöti af íslensku sauðfé og nautgripum.

Í dag hefur Matís rannsakað 369 STEC sýni. Aðallega er um að ræða sýni úr rannsóknaverkefnum en hluti af sýnunum koma vegna gruns um matarsýkingu og hluti frá einkaaðilum vegna reglubundins gæðaeftirlits. Eins og kemur fram í fréttatilkynningu Matvælastofnunar þá getur STEC valdið alvarlegum veikindum í fólki en algeng sjúkdómseinkenni eru niðurgangur. Nýrnaskaði eða svokallað HUS (Hemolytic Urea Syndrome) er alvarlegasta sjúkdómseinkenni STEC smits. Smitleiðir eru með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við smituð dýr, eða umhverfi við mengaðan saur smitaðra dýra.

IS