Fréttir

Málþing um lífrænan landbúnað í Norræna húsinu föstudaginn 16. maí

Á fundinum verður m.a. fjallað um hvort lífrænn landbúnaður sé valkostur á Íslandi. Fundurinn hefst kl. 12:45 og stendur til kl. 17:00.

Á fundinum verður reynt að varpa ljósi á ýmsar hliðar lífræns landbúnaðar. Eru lífrænar afurðir hollari en aðrar? Valda framleiðsluaðferðirnar minni skaða á umhverfinu en ef um hefðbundinn landbúnað væri að ræða? Nær lífrænn landbúnaður betur að uppfylla óskir neytenda hvað varðar dýravelferð? Á málþinginu verður reynt að leita svara við þessum spurningum og ótal öðrum.

Dr. Áslaug Helgadóttir, aðstoðarrektor rannsóknamála, Landbúnaðarháskóla Íslands setur fundinn og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpar fundarmenn. Fundarstjóri verður Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Kristján Oddsson, bóndi á Neðra- Hálsi í Kjós flytur erindi sem hann nefnir Lífræn framleiðsla: Fyrir hvern og hvers vegna? Kristján fjallar fyrst og fremst um lífræna mjólkurframleiðslu sem viðskiptahugmynd – kosti þess og galla að stunda lífræna mjólkurframleiðslu. Þá mun dr. Guðni Þorvaldsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands gera grein fyrir upphafi og tilurð lífræns landbúnaðar ásamt þeirri hugmyndafræði sem þar liggur að baki. Hann ætlar að skoða hvort lífræn ræktun, eins og hún er kynnt nú um stundir, byggi á öðrum grunni en hugmyndafræði frumkvöðlanna. 

Runólfur Sigursveinsson, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands fjallar um reglugerð um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar og dr. Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands flytur erindi sem hann nefnir Skilyrði  fyrir lífrænan landbúnað á Íslandi en þar verður einkum fjallað um líffræðileg skilyrði til slíks búskapar hér á landi með hliðsjón af frjósemi jarðvegs, loftslagi, velferð búfjár og búgreinum svo dæmi séu nefnd. Jafnframt  mun Ólafur víkja stuttlega að stuðningi sem bændur eiga kost á til aðlögunar að lífrænum búskap. 

Dr. Holger Kirchmann, prófessor við landbúnaðarháskólann, Uppsölum flytur erindi þar sem hann ber saman uppskeru, kolefnisbindingu, útskolun næringarefna og orkunotkun í lífrænum og hefðbundunum landbúnaði. 

Grétar Hrafn Harðarson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands flytur erindi sem hann nefndir  Samanburður  á heilsufari og velferð búfjár og öryggi afurða í lífrænum og hefðbundnum landbúnaði.  Í erindinu ætlar Grétar Hrafn  að fjalla um hugsanlegar breytingar á tíðni framleiðslusjúkdóma þegar breytt er yfir í lífrænan landbúnað og hvernig bregðast megi við með fyrirbyggjandi aðgerðum.  Þá ræðir Grétar Hrafn um hugsanlegan mun á hollustu afurða búfjár við lífrænar aðstæður. 

Að lokum mun dr. Daði Már Kristófersson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun H.Í. flytja erindi sem hann nefnir Hagfræði lífræns landbúnaðar.

 Þegar flutningi erinda lýkur verða fyrirspurnir og pallborðsumræður.

IS