Fréttir

Margildi komið í „Glass of fame“

Í húsakynnum Matís að Vínlandsleið 12 er glerskápur sem lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að inn í skápnum er að finna fjöldann allan af vörum sem samstarfsaðilar Matís hafa þróað og komið í neytendapakkningar. Auðvitað er plássið lítið í svona skáp og ekki allar vörur samstarfsaðila sem komast þar fyrir.

GlerskapurinnÍ skápnum góða má núna finna rabarbarakaramellu frá Löngumýri á Skeiðum, skyrkonfekt frá Rjómabúinu á Erpsstöðum, UNA húðvörur úr þörungum, reyktan fisk frá Reykhöll Gunnu á Rifi, birkisíróp frá Holt og Heiðum í Hallormsstað, sælkera sinnep frá Sólakri, mysudrykkur frá Íslandus, kaldhreinsað lýsi með gamalli aðferð frá TrueWestfjords og byggþarapasta svo fátt eitt sé nefnt. Margildi var að bætast í hópinn með vörulínu sína en framleiðsla þeirra er á lýsi úr loðnu, síld og makríl.

Stærri tæki og lausnir sem Matís hefur unnið að í gegnum samstarf sitt við sjávarútveginn komast ekki fyrir í þessum skáp enda sum þessara tækja mjög stór og þung og í einhverjum tilfellum heilar verksmiðjur!

En skápurinn hefur fengið nafnið Glerskápurinn og má með sanni segja að hann sé svona “Glass of fame” hérna hjá okkur í Matís.

IS