Fréttir

Matarsmiðjan

Súrkál fyrir sælkera

Hjá Matís er starfrækt matarsmiðja en það er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.
Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Dagný og Ólafur hjá Súrkál fyrir sælkera.

Hjónin Dagný Hermannsdóttir og Ólafur Loftsson standa að baki verkefninu en Dagný hefur búið til súrkál frá því árið 1984. Áhugi hennar á þessari gerð matvæla jókst ár frá ári, fram til ársins 2017 þegar þau stofnuðu fjölskyldufyrirtækið Huxandi utan um framleiðsluna sem þá var orðin töluvert stórtækari. Í dag súrsa þau alls kyns grænmeti og Dagný hefur auk þess haldið fjölda námskeiða í súrkálsgerð og gefið út bók um þetta lostæti.

Við súrkálsgerð, sem er ævaforn náttúruleg leið til að geyma grænmeti, er ferskt grænmeti sýrt með gerjun. Skapaðar eru sérstakar loftfyrrtar aðstæður svo að mjólkursýrugerlar sem eru í grænmetinu frá náttúrunnar hendi komi af stað gerjunarferli og á nokkrum vikum sýrist það. Einu innihaldsefnin í vörunum eru því grænmeti, salt og krydd en þær eru þó stútfullar af vítamínum, næringarefnum og góðgerlum. Súrkál fyrir sælkera er ógerilsneytt og því lifandi en það þýðir að í framleiðsluferlinu er grænmetið aldrei hitað svo góðgerlarnir haldast á lífi. Við þessa vinnsluaðferð verður grænmetið auðmeltanlegra og styrkir þarmaflóruna en er auk þess fæða sem er hrá, vegan og ketó.

Þetta fjölskyldufyrirtæki hefur framleitt alls kyns gerðir af súrkáli og hliðar afurðum þess með góðum árangri en þar má sem dæmi nefna Karríkál, Kimchi og ýmsa sýrða drykki. Súrkálið er hægt að borða á marga vegu og má til dæmis setja það ofan á hamborgara eða pylsu, í salöt, út í grjóna- eða baunarétti, ofan á brauð eða út í súpur. Súrkál fyrir sælkera þykir með eindæmum gott og hafa þrjár vörur frá merkinu hlotið verðlaun í Askinum, Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki.

Nánari upplýsingar um Súrkál fyrir sælkera má meðal annars finna á vefsíðu þeirra surkal.is

IS