Fréttir

Matarsmiðjan á Flúðum – samningar undirritaðir

Síðustu misseri hefur verið unnið að undirbúningi þess að setja á laggirnar matarsmiðju í uppsveitum Árnessýslu sem verður miðstöð fyrir vöruþróun og fullvinnslu á grænmeti og til að efla fag- og háskólamenntun á svæðinu með kennslu og rannsóknum.

Á Flúðum munu Matís leigja húsnæði að Iðjuslóð 2 fyrir matarsmiðjuna og er reksturinn tryggður með samstarfi Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Háskólafélags Suðurlands, Hrunamannahrepps, Bláskógarbyggð, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, garðyrkjumanna, Matís og Háskóla Íslands. Samningur þessa efnis var undirritaður nú nýverið.

Meginmarkmið verkefnisins er að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla, þ.e.a.s  koma á smáframleiðslu, vöruþróun og rannsóknum á afurðum úr ylrækt á svæðinu og skapa þannig ný og áhugaverð tækifæri á Flúðum og nágrenni en ekki síður að skapa mikilvægan vettvang fyrir frumkvöðla og smáframleiðendur að fullvinna vörur sínar til markaðssetningar.

Vaxtarsamningur Suðurlands veitti styrki til  undirbúnings og uppbyggingu matarsmiðjunnar.

Sérstakt verkefni til þriggja er um starfsemi og rekstur matarsmiðjunnar á Flúðum. Samstarfsaðilar munu í sameiningu vinna að því að tryggja framgang verkefnisins svo hægt verði að nýta aðstöðuna til þróunarstarfs, kennslu, námskeiðahalds og tilraunastarfsemi.

Undirskrift_1-3.9.2010
Úlvar Harðarsson afhendir hér Herði G. Kristinssyni hjá Matís lykilinn að Matarsmiðjunni.
Undirskrift_2-3.9.2010
Frá vinstri Ingibjörg Harðardóttir sveitastj. Grímsn. og Grafningshr., Gunnar Marteinss.
oddv. Skeiða -og Gnúpvhr., Hörður G. Kristinsson frá Matís, Drífa Kristjánsd. oddv.
Bláskógabyggðar og Ragnar Magnússon oddv. Hrunamannahr.

Á næstunni mun starfsmaður verða ráðinn í starf í smiðjuna. Matís leggur mikið upp úr starfsemi sinni utan höfuðborgarsvæðisins og upp úr samstarfi við fyrirtæki og hagsmunaaðila um allt land en fyrirtækið rekur m.a. starfstöðvar á sex stöðum utan Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar veita Guðjón Þorkelsson og Hörður G. Kristinsson hjá Matís.Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar samningar voru undirritaðir.

IS